Framkvæmdir við nýju 5.700 fermetra farþegamiðstöðina á Skarfabakka í Sundahöfn eru á áætlun.
Uppsteypa er í fullum gangi. Starfsmenn ÍAV vinna verkið sem skotgengur eins og myndin sýnir.
Fyrsta skóflustungan var tekin í fyrravor og framkvæmdir hófust fljótlega við grunn. Áætlað er að byggingin verði tilbúin til notkunar áður en vertíð skemmtiferðaskipanna hefst vorið 2026. Næsta sumar verður sett upp bráðabirgðaaðstaða til að afgreiða farþega skemmtiferðaskipa sem koma til Reykjavíkur.
Faxaflóahafnir efndu til samstarfssamkeppni vegna hönnunar og byggingar á fjölnota farþegamiðstöð á Skarfabakka. Vinningstillaga var tilkynnt á vormánuðum 2023 og var það teymi ÍAV, verkfræðistofunnar VSÓ og Brokkr studio arkitekta sem varð hlutskarpast.
Samningur um byggingu farþegamiðstöðvarinnar var undirritaður 23. febrúar í fyrra. Samningsupphæðin er 3,7 milljarðar króna með virðisaukaskatti.
Nýja farþegamiðstöðin er hönnuð með það að leiðarljósi að til verði fjölnota bygging sem nýtist sem farþegamiðstöð stóran hluta úr ári en annars fyrir viðburði af ýmsu tagi, segir í kynningu Faxaflóahafna. Sérstakt form byggingarinnar muni gera hana að kennileiti við Skarfabakkann, bæði frá sjó og landi.
Utan háannatíma skemmtiferðaskipa, sem er maí til og með september, verður fjölnota byggingin aðgengileg fyrir ráðstefnur, fundi og aðra þá stærri viðburði sem bygging af þessari stærðargráðu býður upp á, segir enn fremur í kynningunni. Þetta tíðkist með sambærilegar byggingar víðs vegar um heiminn.