Meðferðarheimilið Blönduhlíð í Mosfellsbæ hefur enn ekki verið opnað og óvíst er hvort þar verði yfir höfuð einhvern tíma meðferðarheimili. Húsnæðið uppfyllir ekki kröfur um brunavarnir og ráðast þarf í miklar breytingar ef svo á að vera.
Í Blönduhlíð átti að vera meðferðarheimili fyrir börn og unglinga með fjölþættan vanda en starfseminni hefur nú verið komið tímabundið fyrir í álmu á Vogi.
Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi, barna- og menntamálaráðherra, opnaði reyndar meðferðarheimilið Blönduhlíð í lok nóvember, fjórum dögum fyrir kosningar, og bauð fjölmiðlum að vera viðstaddir opnunina, þrátt fyrir að fyrir lægi að heimilið væri ekki tilbúið.
Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, segir að ákveðið hafi verið að leigja annað húsnæði undir meðferðarheimili og greiningu barna og unglinga, vegna óvissu með framhaldið í Blönduhlíð.
„Það er óvissa með framhaldið þar og út af allri þeirri óvissu þá brugðum við á það ráð að semja við SÁÁ um leigu á húsnæði hjá þeim, til að geta hafið starfsemi á meðan það er verið að leysa úr þessum óvissuþáttum,“ segir Funi, en úrræðið á Vogi gengur nú undir heitinu Blönduhlíð.
Funi tekur fram að álman sé aðgreind frá þeirri starfsemi sem er á Vogi og að enginn samgangur sé á milli barnanna í meðferðarúrræðinu og annarra skjólstæðinga Vogs.
Gert var ráð fyrir að hægt væri að taka við fimm börnum í einu í Blönduhlíð en á Vogi er pláss fyrir sex börn. Tekið verður á móti fyrstu tveimur börnunum á mánudaginn en Funi segir öll plássin verða fyllt fljótt. Sjö eða átta börn eru á biðlista eftir meðferð og mörg hver hafa beðið lengi eftir að komast að.
Funi játar því að mörg hafi beðið of lengi, en ekkert hefðbundið meðferðarúrræði hefur verið til staðar frá því bruni varð á Stuðlum í lok október, þar sem 17 ára piltur lést. Síðan þá hefur óskemmt rými á Stuðlum verið nýtt undir neyðarvistun, gæsluvarðhald og afplánun fyrir börn og unglinga.
Þegar Ásmundur Einar opnaði Blönduhlíð í lok nóvember hafði brunaúttekt ekki farið fram og ekkert starfsleyfi verið gefið út.
„Þetta snýst um brunavarnir hússins, það eru gerðar mjög miklar kröfur til húsnæðis sem hýsir svona meðferðarheimili. Þetta er gamalt húsi og það eru ýmsir hlutir sem þarf að gera til að hægt sé að nota það. Hlutir sem hafa komið í ljós meira og meira og sér ekki alveg fyrir endann á því,“ segir Funi.
„Þess vegna var ákveðið að gera þetta svona svo börnin væru allavega ekki að bíða“
Gæti farið svo að það verði ekkert meðferðarheimili í Blönduhlíð?
„Ég bara veit það ekki. Mér finnst mjög líklegt að það verði starfsemi í þessu húsi, hvort sem það verður meðferðarheimili, vistheimili eða eitthvað slíkt.“
Samkvæmt deiliskipulagi er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu á þjónustu fyrir börn og unglinga með fjölþættan vanda á þeim reit er Blönduhlíð tilheyrir og nefnist Farsældartún. Eftir því sem Funi best veit er áfram gert ráð fyrir þeirri uppbyggingu á svæðinu.
„En hvort þetta tiltekna hús, sem heitir Blönduhlíð, hvort það verði meðferðarheimili eða eitthvað annað, það er ekki útséð með það.“
Funi segir það vissulega vonbrigði að ekki hafi enn tekist að opna meðferðarheimili í Blönduhlíð.
„Þetta er búið að taka óheyrilegan tíma og orku og hefur verið mjög vont fyrir bæði börn og aðstandendur og alla sem vinna í kerfinu. Þetta hefur verið mjög óþægilegt,“ segir hann, og heldur áfram:
„Við erum allavega með einhverja lausn núna þó hún sé ekki varanleg og það er jákvætt. Það er gott að við getum komið einhverjum börnum í skjól.“
Spurður hvort, svona eftir á að hyggja, hefði ekki verið betra að leigja strax annað húsnæði undir starfsemina, og koma þannig í veg fyrir þessa löngu bið, segir Funi þau raunverulega hafa talið að stutt væri í opnun Blönduhlíðar.
„Þetta er spurning um aðstæður sem skapast. Við töldum að húsið, og ég stend á því, við töldum að húsið væri tilbúið til að geta hafið starfsemi þar í desember. Það var allt á fullu að gera þetta tilbúið. Þess vegna var aldrei inni í myndinni að leigja eitthvað annað.“
Svo hafi komið í ljós hver hindrunin á fætur annarri og á endanum hafi verið ljóst að gera þyrfti aðrar ráðstafanir.
„Það þarf að ráðast í mun stærri breytingar en við ráðgerðum.“
Funi segir það munu taka einhvern tíma að vinna niður biðlista eftir meðferð en það sé ekki óyfirstíganlegt verkefni.
„2025 verður ár uppbyggingar í meðferð barna, ég bara trúi því. Þetta getur ekki orðið verra.“