Smit í spendýrum eykur líkur á að fólk smitist

Fuglaflensa hefur greinst í kúm í Nevada í Bandaríkjunum. Kýrnar …
Fuglaflensa hefur greinst í kúm í Nevada í Bandaríkjunum. Kýrnar í Nevada smituðust af öðru afbrigði fuglaflensu sem kallað er D1.1. Guðrún Aspelund sótt­varna­lækn­ir segir áhættu fyrir almenning hér á landi mjög litla. AFP//Michael M. Santiago/mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Aspelund sótt­varna­lækn­ir seg­ir afbrigði fuglaflensu er greindist í mjólk­ur­kúm í Nevada Banda­ríkj­un­um ekki hafa greinst í Evrópu, og því ekki áhyggjuefni fyrir almenning á Íslandi. Rík ástæða sé þó til að fylgjast með þróun mála.

Kýrnar greindust með D1.1 afbrigðið, sem ekki hefur greinst áður í spendýrum en H5N1 afbrigðið, sem ekki hefur greinst á Íslandi síðan 2023, hefur smitað um 950 hjarðir í 16 fylkjum Bandaríkjanna á síðasta árinu.

„Það sem við höfum áhyggjur af eru auknar greiningar af fuglaflensu sem hafa verið undanfarið, bæði í fuglum en líka einmitt í spendýrum. Þetta er aðallega í villtum dýrum en svo eru þessi kúabú í Bandaríkjunum og svo hafa önnur spendýr greinst,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.

Manneskjan skyldari spendýrum en fuglum

Að sögn Guðrúnar þarf að fylgjast með þróun mála, þó að umrætt afbrigði hafi ekki greinst í Evrópu. Ef veiran er farin að smita spendýr þá aukast líkurnar á að hún geti smitað fólk.

„Það eru þá ákveðnir hæfileikar sem hún hefur til þess, hún þarf ákveðnar breytingar til þess að geta farið inn í frumur hjá fólki og við erum skyldari spendýrum heldur en fuglum. Það er þróun sem þarf að fylgjast með.“

Aðaláhyggjuvaldinn segir hún möguleikann á smiti á flensutíma. Ef smit verður af mannainflúensu og fuglainflúensu á sama tíma getur orðið endurröðun á erfðaefninu á milli veiranna tveggja og þar með orðið til nýtt afbrigði. Nýja afbrigðið hefði þá mögulega hæfni til að smitast á milli fólks. Ákveðin atburðarás þarf að verða til að slíkt gerist en það getur haft alvarlegar afleiðingar.

„Það er eitt að þetta geti smitast í fólk en svo ef þetta getur smitast á milli fólks, það er alveg, þá erum við ekki í góðum málum,“ segir Guðrún.

„Það er eitt að þetta geti smitast í fólk en …
„Það er eitt að þetta geti smitast í fólk en svo ef þetta getur smitast á milli fólks, það er alveg, þá erum við ekki í góðum málum,“ segir Guðrún. mbl.is/Hallur Már

Flest tilfelli hafa verið vægar sýkingar

Að sögn Guðrúnar er ekki hægt að fullyrða að tilfellin um smit á fólki í Bandaríkjunum, sem flest eru vægar sýkingar, þýði að afbrigðið sem greinst hefur þar sé hættulegt. Aðstæður geta haft þar mikil áhrif.

„Það er annað sem hefur áhrif, það er hlífðarbúnaður, vinnuaðstaðan, hvernig eru þessi bú, það er mikið af dýrum þétt saman. Það er allskonar sem gæti haft áhrif þannig að maður getur ekki alveg sagt að akkúrat þessi arfgerð sé endilega eitthvað hættuleg,“ segir Guðrún.

Ekki áhyggjuefni fyrir almenning

Aðspurð hvort möguleiki sé á smiti frá matvælum úr fugla- eða kúabúum svarar Guðrún:

„Það hefur ekki verið sýnt fram á nein smit yfirhöfuð á svona úr matvælum, nema úr hrámjólk, ekki í fólki heldur köttum í Bandaríkjunum. Það er talið að þeir hafi smitast við að drekka ógerilsneidda mjólk, sem á alls ekki að gera af ýmsum ástæðum öðrum en fuglaflensu.“

Þetta er þá ekki orðið áhyggjuefni fyrir almenning á Íslandi?

„Nei alls ekki fyrir almenning. Áhættan er mjög lág, sérstaklega fyrir almenning. En við fylgjumst með þessu og aðal áhyggjuefnið er í dýrum og þá ef þetta fer í fuglabú, sem er líklegra en önnur dýr. Það er það sem Matvælastofnun er mest að reyna að fyrirbyggja. En það hefur ekki verið þannig og líkurnar á því eru mjög litlar,“ segir Guðrún í lokin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert