Hjá Landhelgisgæslunni eru spennandi og krefjandi verkefni fram undan á árinu sem miða að því að auka sjálfvirknivæðingu í vöktun og eftirliti á hafsvæðinu umhverfis landið auk þess að bæta eftirlit með lögsögunni úr lofti.
Þetta segir Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar aðspurður um helstu verkefni stofnunarinnar á þessu ári. Ný tækni og ný tæki munu gera Gæslunni kleift að sinna enn betur sínum lögbundnu verkefnum.
„Við teljum fulla þörf á að efla þá heildarstöðumynd á hafinu sem nauðsynlegt er að Landhelgisgæslan búi yfir,“ segir Georg.
Stórt skref í þá átt verður stigið á árinu með tilkomu fjögurra landratsjáa sem ætlað er að hafa eftirlit á strandsvæðum umhverfis landið. Um þessar mundir er unnið að útboði og bindur Landhelgisgæslan vonir við að þær verði tilbúnar til notkunar á seinni hluta ársins.
Ratsjárnar munu gera varðstjórum í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kleift að fylgjast með siglingum skipa og báta nær landi. Með búnaðinum verður einnig hægt að vakta sjóför sem kjósa að hafa slökkt á staðsetningarbúnaði sínum. Ratsjárnar koma þar af leiðandi til með að nýtast við landamæraeftirlit auk þess sem þær munu gagnast við eftirlit með fjarskiptaköplum og við almenna löggæslu á hafinu.
„Við höfum lengi horft til þess að hafa yfir slíkum búnaði að ráða en landamæra- og áritunarsjóður Evrópusambandsins styrkir kaup á búnaðinum auk þess sem dómsmálaráðuneytið hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar til að tryggja framgang þessa brýna verkefnis,“ segir Georg. Kostnaður er áætlaður um 155 milljónir króna.
Nánar í Morgunblaðinu í dag.