Þjóðvegur 1 fór í sundur við Karlsstaðavita í Berufirði í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur bráðabirgðaviðgerð farið fram, en vegurinn er bara fær fjórhjóladrifnum fjallabílum. Þjóðvegurinn er hins vegar lokaður á milli Djúpavogs og Hafnar.
Samkvæmt heimildum mbl.is fór bíll með tveimur erlendum ferðamönnum ofan í skarð sem myndaðist í veginn í vatnavöxtum og þurfti að flytja þá á sjúkrahúsið í Neskaupstað til aðhlynningar, en meiðsli þeirra reyndust minniháttar. Þá þurfti einnig að flytja þriðja einstaklinginn til Neskaupstaðar vegna annars slyss, en ekki er vitað um ástand hans.
Í frétt Austurfrétta kemur fram að hringvegurinn sé einnig skemmdur í Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði, en ljóst er að mikið foktjón varð í óveðrinu í Stöðvarfirði í dag.
Heimildir mbl.is herma að vegurinn í kringum Djúpavog hafi farið í sundur á fleiri stöðum og er því ekki greiðfært til bæjarins þar sem vegurinn um Öxi er lokaður á þessum árstíma. Sjúkrabíll bæjarins var í útkalli þegar vegurinn fór í sundur og kemst hann ekki til baka fyrr en búið er að gera við veginn. Eru íbúar því sjúkrabílslausir á meðan.
Fylgjast má með færð á vegum á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is