Útilokað að kalla ísrétt bragðaref í eyru Norðmanna

„Þú getur nú bara ímyndað þér hvernig því yrði tekið …
„Þú getur nú bara ímyndað þér hvernig því yrði tekið hér,“ segir Sigurður um hinn íslenska bragðaref – sem er alls ekki íslenskur heldur runninn undan rifjum Dairy Queen í Ameríku. Ljósmynd/Aðsend

„Ég flutti til Noregs til þess að verða yfirkokkur hérna hinum megin við fjörðinn, í Tau,“ segir Sigurður Rúnar Ragnarsson, kokkur og veitingamaður, sem er á góðri leið með að verða innsti koppur í búri veislumatvæla og góðra vína í norsku olíuhöfuðborginni Stavanger sem í sínu heillandi veldi og timburhúsabyggð lúrir við Byfjorden, skammt frá opnu gini Norðursjávarins.

Ekki hafði matgæðingur þessi langa viðdvöl í smáþorpinu Tau, aðeins nokkra mánuði, áður en iðandi veitingalíf Stavanger tók honum opnum örmum, en borgin sú, nú heimili um 150.000 íbúa, hefur löngum haft sterk tengsl við mat, einkum sjávarfang, og mátti þar finna frumkvöðla í niðursuðu matvæla áður en hún var gerð að höfuðborg olíuiðnaðar Norðmanna fyrir rúmri hálfri öld.

„Ég færði mig yfir á ráðstefnusvæðið Stavanger Forum og rak veitingarnar þar og á [knattspyrnuleikvanginum] Viking Stadion í sjö ár áður en ég færði mig niður í Konserthuset og rak veitingastaðinn Spiseriet þar í sex ár. Í millitíðinni opnuðum við svo ísbúð árið 2017 hérna í miðbæ Stavanger, við Valbergstårnet,“ segist Sigurði frá, en það var raunar ísbúðin MooGoo Ice Cream House sem blaðamaður ætlaði sér helst að ræða við veitingamanninn.

Samfélagsleg nærvera norska refsins

Nýlega fór vefmiðillinn rastavanger.no, sem byggir á fornum grunni dagblaðsins Rogalandsavisen, yfir ísrekstur Sigurðar sem fyrstur manna í Noregi býður upp á bragðaref að íslenskum hætti, sem þó má alls ekki kenna við refi í Noregi þar sem samfélagsleg nærvera tegundarinnar er mun sterkari í norsku samfélagi en víða annars staðar. Rata ferðir refa um norska bæi auðveldlega efst á vefsíður norskra fjölmiðla auk þess sem dýrið komst nánast í dýrlingatölu eftir að dægurlag þeirra Ylvis-bræðra, What Does The Fox Say, vakti heimsathygli.

Sigurður við störf uppi á sextándu hæð í turninum K8 …
Sigurður við störf uppi á sextándu hæð í turninum K8 þar sem hann rekur veitingastaðinn og kokteilbarinn Seið, en Íslendingar hafa um árabil sett töluverðan svip á atvinnulífið í Stavanger. Ljósmynd/Aðsend

„Þú getur nú bara ímyndað þér hvernig því yrði tekið hér,“ segir Sigurður kíminn sem selur bragðaref með íslensku sælgæti undir nafninu MooGoo Special – þar með þykir vonandi engum vegið að heiðri lágfótu gömlu. Tekur hann þó sérstaklega fram að bragðarefurinn sé engan veginn íslenskur og heldur ekki kynntur þannig á boðstólum MooGoo.

„Þetta kom náttúrulega til Íslands beint frá Dairy Queen í Ameríku þar sem þetta heitir Blizzard,“ segir Sigurður í framhjáhlaupi, allt að því kæruleysislega, en ísheimsmynd blaðamanns hrynur til grunna í einu vetfangi. Átti ekki bragðarefur að vera jafn íslenskur og Kók og Prins Póló?

Vantaði bragðaref í bæinn

Það voru þau eiginkona hans, Guðrún Hildur Eyjólfsdóttir, framreiðslumaður og vínþjónn, sem opnuðu MooGoo ásamt vinahjónum, þeim Daníel Sigurgeirssyni matreiðslumeistara, áður kenndum við Argentínu steikhús heitið, og Elínu Jónsdóttur, konu hans. „Hún er sú eina sem er ekki beintengd veitingabransanum að öðru leyti en því að hún kynntist Danna á Argentínu þar sem hún var að þjóna í gamla daga,“ segir Sigurður af þeim fjórmenningum sem haslað hafa sér svo ríkulegan völl meðal frændþjóðarinnar.

Sigurður ásamt Nathaliu Zygula sem er verslunarstjórinn hans í MooGoo, …
Sigurður ásamt Nathaliu Zygula sem er verslunarstjórinn hans í MooGoo, ísbúð sem, eins og nafnið bendir til, Sigurður og sameigendur hans eru ekkert að kynna sem íslenska sérstaklega. Ljósmynd/rastavanger.no/Lena Elise Svensen-Krogstad

„Aðalhugmyndin var að okkur langaði í ís og það vantaði bragðaref í bæinn,“ segir Sigurður af hvata og upphafi MooGoo sem er afskaplega litríkur staður, bókstaflega. En skyldi opnun ísbúðar með íslenskt þema ekki hafa haft vissa áhættu í för með sér í landi sem þekkir allt aðrar íshefðir?

„Í raun gerðum við þetta bara sem hliðarverkefni, hálfgert hobbý,“ svarar veitingamaðurinn, „við erum öll í fullu starfi utan við þennan rekstur þannig að við höfum ekkert tekið út úr þessari ísbúð að ráði, reksturinn hefur að mestu farið í að borga staðinn upp, við smíðuðum alveg nýjan stað í Kirkjugötunni, rétt fyrir ofan litagötuna. Þetta er bleik ísbúð, alveg skærbleik,“ segir Sigurður frá og vísar með litagötunni til hinnar marglitu Øvre Holmegate þar í borginni sem fólk verður að mati blaðamanns bara að sjá með eigin augum frekar en að lesa lýsingar á prenti.

Eiga fimm dætur samanlagt

„Við bjóðum þarna upp á bragðaref með ekta íslensku nammi og þó að Norðmenn séu voðalega hrifnir af kúluís finnst þeim raunar gott að fá sér kúluís með nammi ofan á,“ segir Sigurður af ísfólkinu í Noregi – þó ekki því sama og hin norsk-sænska Margit Sandemo heitin ritaði 47 bækur um á sínum tíma.

Þegar íslenska athafnamenn erlendis langar í ís fara þeir ekki …
Þegar íslenska athafnamenn erlendis langar í ís fara þeir ekki í næstu ísbúð, þeir opna sína eigin. Ljósmynd/rastavanger.no/Lena Elise Svensen-Krogstad

Tekur hann þó fram að Moo Goo Ice Cream House sé ekki á nokkurn hátt kynnt sem íslensk ísbúð, enda gefur nafnið ekki tilefni til að draga slíkar ályktanir. „Hingað koma til dæmis mjög margir farþegar af skemmtiferðaskipum,“ útskýrir Sigurður. Þar séu útlendingar á ferð í heimsókn til Noregs og ekki ástæða til að markaðssetja þeim sérstaklega íslenskar ísútfærslur.

„Við höfum verið að taka inn tvö-þrjú bretti á ári með dýfum frá Kjörís og íslensku sælgæti eins og Braki, Nóa-kroppi og Þristi og öðru klassísku sem er notað í ísbúðunum. Á sumrin höfum við svo tekið inn smásölugotterí frá Góu eins og Hraun og Lindubuff, svona til að fylla upp í brettin,“ útskýrir Sigurður og auðheyrt að hann er verseraður í fræðum sínum.

Fyrir miðri mynd má sjá Valbergsturninn flóðlýstan. Um það bil …
Fyrir miðri mynd má sjá Valbergsturninn flóðlýstan. Um það bil þar er hægt að finna MooGoo og fá sér bragðaref með íslensku nammi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Aðspurður kveður hann starfsfólkið blöndu Norðmanna og Íslendinga. „Börnin okkar eru að vinna hjá okkur, við eigum fimm dætur samanlagt, þessi tvö pör sem eigum þetta, og þær vinna sumarvinnu hjá okkur og hjá öðrum er þetta oft fyrsta vinna hjá krökkum sem eru að byrja í framhaldsskólunum, en á veturna erum við með kjarnahóp sem er aðeins eldri,“ segir veitingamaðurinn.

Þrettán staðir – þrettán yfirkokkar

Sem fyrr segir nær athafnasemi Sigurðar langt út fyrir ísbúðina fagurbleiku. „Ég rek hérna þrjú veitingahús og er framkvæmdastjóri Stavanger Vinfest sem er árleg vínhátíð, ísbúðin er bara hliðarverkefni og ég hafði ekki aðra reynslu fyrir af ísbransanum en að hafa borðað ís sem barn og unglingur,“ segir hann glettinn og minnist sérstaklega á víndagana í lok mars sem nú eru orðnir töluvert umfangsmeiri en þegar blaðamaður bjó í Stavanger fyrir áratug.

Einbeitingin skín úr ásjónu kokksins, en Sigurður bregður sér í …
Einbeitingin skín úr ásjónu kokksins, en Sigurður bregður sér í flest hlutverk á veitingastöðum sínum, enda framreiðslumaður og undir það hugtak getur margt fallið. Ljósmynd/Aðsend

„Við fáum um tvö þúsund gesti gegnum aðaluppákomurnar og svo erum við með samstarf þrettán veitingastaða sem fá vínframleiðendur alls staðar að úr Evrópu og Suður-Afríku í heimsókn til Stavanger,“ lýsir Sigurður og segir mikið um dýrðir í veitingalífi Stavanger-búa meðan á hátíðinni stendur.

„Á fimmtudeginum koma þessir þrettán staðir saman með þrettán yfirkokkum og þrettán vínframleiðendum og búa til þrettán rétta hádegisverð sem er samstarfsverkefnið,“ segir hann, en þrátt fyrir framkvæmdastjórastöðu hátíðarinnar er hún nánast á jaðrinum hjá Sigurði – eins og ísbúðin.

Þráinn á Óx mætir í mánuðinum

„Fyrst og fremst er ég að reka veitingastaðina sem verið var að opna í nýja turninum í miðbæ Stavanger, K8. Þar er ég til dæmis með veitingastað sem heitir Seid, eða Seiður, og er grill- og kokteilbar á sextándu hæðinni með svakalegu útsýni og niðri á fyrstu hæð er ég með kaffihús og veitingastað sem heitir Ilo og svo starfsmannaveitingastað fyrir leigutakana í húsinu sem eru til dæmis DNB-bankinn, Helse Vest [sem rekur meðal annars Háskólasjúkrahúsið í Stavanger] og fleiri stórfyrirtæki.“

Útsýnið yfir heillandi miðbæinn í Stavanger, þar sem skáldið Alexander …
Útsýnið yfir heillandi miðbæinn í Stavanger, þar sem skáldið Alexander Kielland gekk í þungum skáldaþönkum umhverfis Breiavatnet fyrir margt löngu, er heillandi af sextándu hæðinni í K8 þar sem Sigurður magnar Seið. Ljósmynd/Aðsend

Til að bera í bakkafullan lækinn situr Sigurður svo í stjórn hinnar gríðarstóru matarhátíðar Gladmatfestivalen sem haldin hefur verið að sumarlagi í miðbænum allar götur síðan árið 1999 og dregur nú orðið að sér um 250.000 sælkera hvaðanæva.

„Á vegum stjórnar Gladmat verður haldin Food & Fun-hátíð 19. og 20. febrúar og þá fæ ég til mín Þráin [Frey Vigfússon] sem rekur Óx og Sumac grill á Íslandi. Hann verður þá gestakokkur hjá mér á Seid og svo fæ ég annan gestakokk frá Þrándheimi, Christopher Davidsen, sem verður á Ilo á fyrstu hæðinni,“ boðar Sigurður af matarfagnaði komandi.

Sigurður er framkvæmdastjóri Stavanger Vinfest sem laðar til sín fjölda …
Sigurður er framkvæmdastjóri Stavanger Vinfest sem laðar til sín fjölda gesta, þó ekkert á við Gladmatfestivalen sem er risastór og dregur til sín um 250.000 manns, en Sigurður situr í stjórn hennar. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður segir veitingakóngurinn í Stavanger sína helstu framtíðaráætlun vera að láta reksturinn blómstra í höndum sér. „Og passa upp á að börnin mín komist á legg á sama tíma. Þau eru öll í tónlistinni og ég reyni að styðja við bakið á þeim við sitt nám á meðan ég er með allar hendur í veitingunum,“ segir Sigurður Rúnar Ragnarsson, kokkur og veitingamaður, að lokum af veislueldhúsum og ísmenningu í norsku olíuhöfuðborginni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert