Vilja leyfa fólki að reykja vímuefni í neyslurýmum

Alma Möller heilbrigðis­ráðherra.
Alma Möller heilbrigðis­ráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til skoðunar er að veita heilbrigðisstofnunum heimild til þess að reka neyslurými. Einungis sveitarfélög hafa heimild til þess núna.

Í febrúar mun Alma Möller heilbrigðisráðherra leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni. Breytingarnar eru m.a. þess efnis að fólki sem notar neyslurými verði heimilt að nota þar vímuefni, óháð aðferð.

Myndi draga úr sýkingum

„Eins og leiðin er í dag þá er einungis leyfilegt að nota vímuefni í æð. En það eru margir notendur farnir að reykja vímuefni,“ segir Alma í samtali við mbl.is og nefnir að því vilji ráðuneytið bæta við lögin að fólk megi reykja vímuefni í rýminu.

„Og það er alltaf mjög gott að vera ekki að sprauta sig því það eru svo miklir fylgikvillar við það.“ 

Í lýsingu frumvarpsins kemur einmitt fram að með því að heimila fólki að nota í rýmunum vímuefni óháð aðferð sé það skaðaminnkandi aðgerð sem m.a. dragi úr sýkingum.

Vilja auka líkur á að neyslurýmum sé komið upp

Þá nefnir Alma að einnig sé til skoðunar að hafa í frumvarpinu heimild til heilbrigðisstofnana til þess að reka neyslurými en það sé einungis á færi sveitarfélaga eins og staðan er núna.

„Þar er kannski verið að hugsa um landsbyggðina ef þörf er á og að auka fjölbreytnina í því hverjir mega reka neyslurými.

Eins og ég segi er það einungis heimild fyrir sveitarfélög í dag. Það er verið að auka líkur á að það sé komið upp neyslurýmum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert