Ekkert breyst í samstarfinu nema fylgi flokkanna

Dóra Björt gengur út af oddvitafundi í Ráðhúsinu eftir að …
Dóra Björt gengur út af oddvitafundi í Ráðhúsinu eftir að borgarstjóri sprengdi meirihlutann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi skoðanamunur flokkanna hefur legið fyrir frá upphafi þessa kjörtímabils og við afgreiddum hann mjög snyrtilega í meirihlutasáttmála. Það hefur ekkert breyst í þessum efnum nema fylgi flokkanna.“

Þetta segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, í samtali við mbl.is.

„Þetta eru mjög djúp vonbrigði og kemur á óvart,“ segir Dóra Björt.

„Sérstök aðferðafræði“

Hún segir borgarstjóra hafa tilkynnt sér og oddvitum Samfylkingarinnar og Viðreisnar, þeim Heiðu Björgu Hilmisdóttur og Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, um slitin á oddvitafundi í kvöld.

Telurðu að þetta hafi komið ykkur öllum á óvart?

„Já, ég get ekki betur séð en að þetta hafi komið okkur öllum á óvart. Ég hef alltaf starfað í miklu trausti og verið upptekin af heiðarleika og hreinskilni og þess vegna kom þetta mér í opna skjöldu. Og þegar ég heyri af því að það hafi jafnvel einhver samtöl átt sér stað fyrir þennan tímapunkt þá finnst mér það sérstök aðferðafræði,“ segir Dóra og heldur áfram: 

„Mér finnst leitt að sjá að Einar og samstarfsfólk okkar í Framsóknarflokknum sjái sér ekki fært að standa við okkar mikilvæga meirihlutasáttmála og þau mikilvægu verkefni sem þar er að vinna í þágu borgarbúa.“

Framsókn verði að svara fyrir sig

Kveðst hún sjálf leggja áherslu á að standa við gerða samninga og seiglu. 

„Það er alla vega mín nálgun á hlutina en þau verða auðvitað að svara fyrir sig,“ segir Dóra Björt.

„Hann heldur auðvitað á valdamesta embætti borgarinnar og það að segja að þú getir ekki komið hlutum í verk í því hlutverki, þegar Framsókn hefur slík völd í hendi sér, það er sérstök röksemdafærsla að mínu mati.“

Hún segir ýmislegt í spilunum eins og er og að hún geri ráð fyrir því að margir flokkar muni ræða saman núna á næstunni. Hægt sé að mynda ýmsa meirihluta.

Einnig standi til boða að hafa engan meirihluta og standa í fjölskipuðu stjórnvaldi, enda sé ekkert sem kveði á um að borgarstjórn verði að mynda meirihluta líkt og flokkar á þingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert