„Lán að sá sem stóð við ræsið heyrði skruðningana“

„Það var bara lán að sá sem stóð við ræsið og var að pjakka úr því heyrði skruðningana og hljóp í burtu.“

Þannig lýsir Valur Hilmarsson, verkstjóri hjá umhverfismiðstöð Akureyrarbæjar, í samtali við mbl.is atburðarásinni þegar vegur fór í sundur fyrir ofan garðræktina í innbænum á Akureyri í gær.

Horfðu á vatnsflauminn koma á móti sér

Ræsi hafði stíflast á tiltölulega skömmum tíma við mikið gil, Naustagil, sem liggur ofan úr Naustahverfi og niður hlíðina niður í innbæinn sunnan við skautahöllina.

„Þar rennur lækur niður í gegnum skógræktina sem kemur niður hjá Mótorhjólasafninu. Við vorum þar að halda ræsinu hreinu og vorum hamingjusamir með það, héldum að við værum komnir á gott skrið og búnir að bjarga Iðnaðarsafninu þegar vegurinn fer í sundur,“ segir Valur.

Valur og hans menn horfðu svo á vatnsflauminn koma á móti sér niður gilið en straumurinn tók með sér mikið magn af möl og gróðri sem og að tré í heilu lagi ferðuðust langleiðina niður hlíðina.

Starfsmaður Akureyrarbæjar pjakkar í ræsi hálfur ofan í vatnsflaumnum.
Starfsmaður Akureyrarbæjar pjakkar í ræsi hálfur ofan í vatnsflaumnum. Ljósmynd/Sigríður Hrefna Pálsdóttir

Tók í sundur háspennustreng og ljósleiðara

Vatnságangurinn tók í sundur háspennustreng og ljósleiðara og þá grófst undan undirstöðu hitaveitulagnar sem liggur frá Laugalandi í Eyjafirði. Lögnin sjálf skemmdist ekki.

Valur segir þá frá að við hafi tekið nokkurra klukkustunda vinna niður við Krókeyri þar sem bæði Mótorhjólasafn Íslands og Iðnaðarsafnið eru til húsa.

„Það var mikill aurburður þarna niður í nokkra klukkutíma og við vorum bara með bíl að moka stanslaust upp úr til að halda einhverju streymi í gegnum ræsin en það rann líka í átt að Iðnaðarsafninu og út í tjarnirnar fyrir austan skautahöllina.“

Iðnaðarsafnið varið fyrir vatnselgnum með sandpokum.
Iðnaðarsafnið varið fyrir vatnselgnum með sandpokum. Ljósmynd/Aðsend

Notast var við kranabíl og krabba að sögn Vals auk einnar gröfu sem mokaði mölinni upp úr svo ræsið stíflaðist ekki algjörlega.

„Svo skiptust þeir á að standa úti í flaumnum og sópa ofan af ræsinu. Það var svona það sem við gátum gert. Það var svo mikil möl sem kom þarna niður og alls konar gróður að það þurfti að moka stöðugt upp úr.“

Ljósmynd/Sigríður Hrefna Pálsdóttir

Dælt upp úr kjallara og fylgst með lagnakerfi

Um önnur verkefni tengd vatnsveðrinu og asahláku segir Valur að ræsi hafi stíflast í Lækjargili sem tengir innbæinn á Akureyri sunnan ísbúðarinnar Brynju og svæði kirkjugarðsins á Naustahöfða saman.

„Þar sluppu öll hús en töluvert af efni fór niður gilið og við þurftum að vakta það,“ segir Valur.

Spurður hvort engin stærri verkefni hafi skapast í bænum vegna veðursins segir Valur að annars staðar í bænum hafi allt að mestu leyti sloppið til. Fylgjast hafi þurft með vatninu hingað og þangað um bæinn, ræsunum fyrir ofan hann og lækjum og ám eins og inni í Kjarnaskógi. „Við þurftum bara að vera á vaktinni, moka og hreinsa frá ræsum.“

Þá hafi björgunarsveitin einhvers staðar þurft að dæla upp úr kjallara og Norðurorka að fylgjast vel með lagnakerfinu.

Stórfljót gærdagsins vinalegir lækir dagsins í dag

Valur segir allt rólegt í dag og stórfljótin sem hann og hans menn voru að berjast við í gær séu bara vinalegir lækir í dag.

„Nú erum við bara að fara yfir stöðuna og bæta efni í þar sem hefur skolast úr lækjarfarvegum og vegköntum. Það er svo sem ekkert stórkostlega mikið en það er svolítið.“

Utan þess að vegurinn hafi farið í sundur segir hann að þurfi á nokkrum stöðum að setja efni í slóða, gangstéttir og götur en aðspurður segir hann ekki endilega um stórtjón að ræða.

Spurður hvort ekki hafi skapast fordæmalaust ástand í bænum segir hann í það minnsta að slíkt ástand hafi ekki skapast oft. Sjálfur hefur hann starfað við þetta í 5 ár en segist hafa rætt við menn sem eigi lengri sögu í þeim efnum, fyrrverandi verkstjóra og fleiri. Eftir þau samtöl geti hann fullyrt að ástandið hafi ekki skapast oft.

Ekkert sem klikkaði

Hvernig skapast svona ástand?

„Það kemur óhemjumikil úrkoma með hita og sunnavindi sem bræðir snjóinn og allir lækir vaxa og verða að stórfljótum á mjög skömmum tíma. Síðan er alls konar fokrusl sem stíflar ræsi hjá okkur og trjágreinar og gróður sem fýkur til.“

Hefði verið hægt að fyrirbyggja þetta ástand?

„Við vorum á stöðugri vakt við öll þessi helstu ræsi þannig að það var í raun ekkert sem klikkaði þannig lagað.

Við vorum til dæmis tiltölulega nýbúnir að fara þar sem mesti skaðinn var og vorum að vinna þarna neðar.“

Valur vill meina að það sem hafi í raun bjargað því að ástandið hafi ekki orðið enn verra hafi verið nýtt fyrirkomulag snjómoksturs í bænum.

„Við gerðum þá breytingu að megninu af snjónum er keyrt á opin svæði hingað og þangað um bæinn. Þannig er ekki safnað upp í ruðninga á köntunum eins og var.

Það sparar líka mikla vinnu því áður vorum við oft heilu hóparnir fram á nætur að pjakka í niðurföllum,“ segir Valur.

Ljósmynd/Sigríður Hrefna Pálsdóttir
Ljósmynd/Sigríður Hrefna Pálsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert