Nýtt að gestalistinn sé umræðuefni á Alþingi

Skrifstofustjóri í menntamálráðuneytinu og ráðuneytisstjórar í fjármála- og forsætisráðuneytinu komu …
Skrifstofustjóri í menntamálráðuneytinu og ráðuneytisstjórar í fjármála- og forsætisráðuneytinu komu í Karphúsið síðustu helgi. Samsett mynd

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari staðfestir að Hafþór Einarsson, skrifstofustjóri í barna- og menntamálaráðuneytinu, hafi komið í Karphúsið um helgina, að hans beiðni. Hann vill þó ekki upplýsa um í hvaða tilgangi það var.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, barna- og menntamálaráherra, upplýsti um aðkomu Hafþórs í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í dag. Hún sagði hann hins vegar ekki hafa fundað með kennurum.

Í gær óskaði stjórnarandstaðan eftir svörum frá forsætisráðherra vegna meintra afskipta barna- og menntamálaráðherra af kjaradeilu kennara.

Spurt var hvort það væri rétt, sem fregnir hermdu, að ráðherra eða starfsmaður á hennar vegum hefði boðið kennurum tveggja prósenta launahækkun til viðbótar við það sem var á borðinu. Hafði skrifstofustjórinn verið nefndur í því samhengi.

Oft verið beðinn um að koma

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, barna- og menntamálaráðherra, hefur tekið fyrir að hún hafi haft aðkomu að deilunni með nokkrum hætti. Hvorki hún sjálf né nokkur á hennar vegum hafi boðið kennurum launahækkanir. 

Ástráður segir það oft þannig að embættismenn séu fegnir á fundi til að upplýsa um eitthvað eða ræða ákveðin mál.

„Það er auðvitað þannig að það er ýmislegt af þeim málefnum sem menntamálaráðuneytið hefur yfir að segja sem varðar kjaraumhverfi kennara. Hann hefur oft verið beðinn um að koma hérna. Bæði á mínum vegum og samninganefndanna,“ segir Ástráður og vísar þar til Hafþórs. Hann getur hins vegar ekki upplýst við hverja hann ræddi um helgina.

Allskonar samráð eðlilegt

Þá mættu ráðuneytisstjórar fjármála- og forsætisráðuneytisins einnig í Karphúsið um helgina, en þeir sátu meðal annars fund í kjaramálaráði í sömu húsakynnum.

Er það alveg eðlilegt að ráðuneytisstjórar komi á fundi?

„Já, það er auðvitað þannig að þegar deilur eru af þessum toga þá er alls konar samráð, eðlilega, við stjórnvöld um allskonar hluti. Það er hins vegar nýtt þegar gestalistinn er orðinn að sérstöku umræðumáli á Alþingi,“ segir Ástráður.

Ásthildur sagði í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í dag að þegar beiðni kom frá ríkissáttasemjara um aðkomu Hafþórs, þá hafi hún borið málið undir forsætisráðherra. 

Hún sagðist ekki skilja hvaðan þær sögusagnir væru komnar að hún, eða einhvern í hennar umboði, hefði boðið kennurum launahækkanir.

„Mér finnst þetta með ólík­ind­um það sem verið er að spinna,“ sagði Ásthildur.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert