„Sá það bara hverfa í einni vindhviðu“

Óveðrið olli töluverðu tjóni.
Óveðrið olli töluverðu tjóni. Ljósmynd/Garðar Harðar Vestmann

„Þetta er náttúrulega aðallega tilfinningalegt tjón hjá mér. Ég var búinn að byggja hér og nú eru farin tré og ýmislegt annað,“ segir Garðar Harðar Vestmann, íbúi á Stöðvarfirði, um vonskuveðrið sem olli þar miklu tjóni.

Garðar var að taka sér pásu frá hreinsunarstörfum þegar blaðamaður mbl.is náði af honum tali.

Vinna í allan dag við að hreinsa

„Það hefur loksins gengið niður veðrið og menn eru núna bara komnir hérna víða að frá þorpunum á vegum Fjarðabyggðar að hjálpa til við að reyna að hreinsa þetta allt. Það er ekkert annað hægt að gera núna. Þetta er svo stórt að það verður vinna í allan dag við að hreinsa,“ segir Garðar.

„Þeir eru hérna með vörubíl og stóran krana og það er verið að hífa trjárusl og annað sem að fór. Við erum búnir að vera að smala saman í hauga það sem hægt er og byrja að gera við það sem er skemmt.“

Þaktjón varð á mörgum húsum í firðinum.
Þaktjón varð á mörgum húsum í firðinum. Ljósmynd/Garðar Harðar Vestmann

„Snælduvitlaust“

Spurður hvort óveðrið hafi bitnað mikið á hans heimili segir Garðar svo vera. Hann sé með geymsluhúsnæði og gróðurhús fyrir neðan húsið hjá sér og segir hann það hafa allt farið í veðrinu sem hann kallar „snælduvitlaust.“

„Ég sat hérna og sá það bara hverfa í einni vindhviðu.“

Unnið er að því að hífa tré af götum sem …
Unnið er að því að hífa tré af götum sem fuku til í veðrinu. Ljósmynd/Garðar Harðar Vestmann

Kom úr öllum áttum

Segist Garðar hafa farið um nóttina að aðstoða nágranna sína þar sem gluggar voru m.a. farnir að brotna og nefnir hann að það versta við óveðrið hafi verið að það kom úr öllum áttum.

„Maður var hvergi í skjóli. Vindurinn snerist bara stöðugt. Maður hefur aldrei séð þetta áður. Auðvitað geta verið vond veður en þá venjulega úr einni átt.“

Eins og hamfarasvæði 

Hann segir miklar skemmdir hafa orðið í firðinum. Margir bílar séu skemmdir og þök farin af húsum. Þá nefnir hann einnig að rétt hjá sínu heimili sé þriggja hæða hús með tré í garðinum sem sé hærra en húsið. Segir Garðar það tré nánast hafa klofnað í tvennt og endað á bílastæðinu sínu sem gefur ágæta mynd af styrk óveðursins.

„Þegar ég horfði út um gluggann í gærmorgun datt manni helst í hug hamfarasvæði einhvers staðar úti í heimi.“

Ljósmynd/Garðar Harðar Vestmann

Heppni að enginn hafi meiðst

Þá segir Garðar það einnig hafa verið mikla heppni að engin hafi meiðst í óveðrinu en hann, ásamt nokkrum íbúum og slökkviliðsmönnum, voru á ferðinni um nóttina að veita aðstoð.

Um umfang tjónsins hjá sér segir Garðar það aðallega vera tilfinningalegt. Eina peningatjónið sé varðandi bíl hans þar sem rúða, afturljós og stuðari brotnuðu.

„Hann þarf að fara bara í allsherjarlagfæringu, en það er nú bara svona bíladót.“

Ljósmynd/Garðar Harðar Vestmann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert