Hinsegin fólk býr að jafnaði við verri heilsu og líðan en aðrir. Það er líklegra til að hafa orðið fyrir ofbeldi, eiga í vanda með áfengi og vímuefni og upplifa andlega örðugleika.
„Það er alveg klárt að það má draga einhver tengsl þarna á milli niðurstaðna og þess að fólk verður ennþá fyrir töluverðum fordómum í samfélaginu.“
Þetta segir Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is um niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og líðan hinsegin fólks, sem kynntar voru í Ráðhúsinu fyrr í dag.
Hvað heldur þú að verði til þess að hinsegin fólk upplifi líkamlega og andlega heilsu sína verri en þeir sem ekki eru hinsegin?
„Þetta er rosalega stór spurning en það eru ýmsar kenningar um það. Það hafa verið framkvæmdar svipaðar rannsóknir erlendis sem hafa sýnt að ástæðan geti verið að mögulega hafi þau ekki jafn greitt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, sökum til dæmis ótta við fordóma í heilbrigðiskerfinu eða upplifun á fordómum.“
Þá segir Þórhildur niðurstöður á borð við þessar almennt tengdar við fordóma, hatur og að vera á jaðrinum í samfélaginu. Það hefur raunveruleg áhrif á fólk, bæði á heilsu og upplifun á eigin heilsu. Þá hefur þetta áhrif á getu, vilja og traust til að sækja sér heilbrigðisþjónustu og þátttöku fólks í samfélaginu.
Hvaða þýðingu hefur rannsóknin og niðurstöður hennar?
„Við erum komin með haldbærar upplýsingar um heilsu og líðan hinsegin samfélagsins á Íslandi, sem er eitthvað sem við höfðum ekki áður, en höfðum grun um að væri ekki í góðu lagi,“ svarar Þórhildur.
„Þannig að rannsóknin hefur þá þýðingu að þetta er í fyrsta sinn sem við höfum þessar upplýsingar. Við höfum þessar tölur um að staðan sé ekki nógu góð sem leiðir til þess að við getum farið að skipuleggja aðgerðir og miða að stefnumótun til að bregðast við þessu.“
Þá segir hún þá sem vinna í málefnum hinsegin fólks, til að mynda Samtökin ‘78 og Þórhildur sjálf, hafa getað sagt til um hverjar niðurstöðurnar yrðu.
„Bara vegna þess að við þekkjum til í samfélaginu, þannig að það er ekkert þarna sem að kom á óvart, en þetta er samt í fyrsta skipti sem að við getum í rauninni bent á einhverjar tölur og sagt þetta er það sem tölfræðin segir okkur.“
Hvernig er hægt að nýta þessar niðurstöður til að bæta úr stöðunni?
„Það er hægt að nýta þær á margvíslega vegu. Þetta tekur á nokkrum þáttum, andleg og líkamleg heilsa og ákveðnir geðheilsuþættir eru skoðaðir ásamt neyslu áfengis og vímuefna.“
Niðurstöðurnar fari því yfir víðan völl og nýtist á mismunandi stöðum samfélagsins.
„En niðurstöðurnar nýtast okkur í að móta markvissari aðgerðir fyrir þennan hóp, hvort sem það er í ofbeldisforvarnarmálum hjá borginni eða lýðheilsumálum. Við erum með bæði ofbeldisforvarnarstefnu og lýðheilsustefnu og aðgerðaráætlanir þeim tengdum hjá Reykjavíkurborg. Það er klárt mál að þessar niðurstöður nýtast inn í þá vinnu, að móta aðgerðir sem eru til þess fallnar að bæta þessa stöðu,“ segir Þórhildur.
Sem hluti af verkefninu voru unnar tillögur út frá niðurstöðum sem verða hafðar til hliðsjónar í framtíðarvinnu Reykjavíkurborgar, þó að ýmislegt sé þegar verið að gera.
Samtökin ‘78 hafa til að mynda síðasta árið staðið fyrir heilsuhvetjandi verkefni þar sem hinsegin fólk, sem hefur kannski ekki treyst sér til að sækja hefðbundna líkamsrækt eða annan heilsustuðning, getur mætt og fengið leiðsögn sjúkraþjálfara og íþróttafræðings.
Þórhildur bendir á að tryggja þurfi að öll heilbrigðisþjónusta sé aðgengileg hinsegin fólki, það þurfi ekki að vera einhver sérúrræði eða stuðningur til að bæta upp fyrir að það treysti sér ekki til að nýta þau úrræði sem í boði eru.
„Auðvitað ættu úrræði og þjónusta sem að standa almenningi til boða að standa öllum til boða, líka hinsegin fólki.“
„Það er sömuleiðis mikilvægt að ofbeldisforvarnir og stuðningur við þolendur ofbeldis nái til allra og sé aðgengilegt og inngildandi öllum sem gætu þurft á þessari þjónustu að halda,“ bætir Þórhildur við.
Að lokum segir hún nauðsynlegt að horfa á málið frá mörgum sviðum.
„Það er ekki ein töfralausn, ein breyting er ekki að fara að umbylta þessu heldur þarf að hugsa um þetta frá mörgum sviðum.“