Breitt bandalag eða sama stjórn án Framsóknar

Dóra Björt Guðjónsdóttir býður sig fram.
Dóra Björt Guðjónsdóttir býður sig fram. mbl.is/María Matthíasdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, telur tvo kosti helsta í stöðunni varðandi nýjan meirihluta í borginni. Annars vegar að sami meirihluti haldi áfram en án Framsóknarflokks eða þá að Flokki fólksins, VG og Sósíalistaflokki verði kippt inn í stjórn. 
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá henni á Facebook. 
 
Píratar voru hluti af þeirri borgarstjórn sem sprakk í vikunni. 

Tveir kostir 

„Einn kostur sem vert væri að kanna væri samtal um að halda meirihlutasamstarfinu áfram og klára síðasta árið án Framsóknarflokks sem hefur sagt sig frá verkefninu, en með stuðningi Vinstri grænna, Sósíalistaflokks og Flokki fólksins sem gætu tekið þátt eða eftir atvikum varið meirihlutann falli.
Annar kostur, sjái Viðreisn sér ekki fært að taka áfram þátt í meirihlutasamstarfinu án Framsóknar, væri að stofna hér fimm flokka félagshyggjustjórn Pírata, Samfylkingar, Flokks fólksins, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks,“ segir Dóra Björt í tilkynningu sinni. 

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ráði ekki ferðinni 

„Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ráða ekki ferðinni og Flokki fólksins og Viðreisn er ekki sá kostur nauðugur að hefja samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Aðrir frábærir kostir eru í stöðunni. Það er til mikils að vinna að klára það verk sem hafið er og sigla borgarskútunni örugglega í höfn fyrir kosningar á næsta ári. Öflug umbótastjórn undir forystu kvenna er ekki bara möguleg heldur mikið og sögulegt tækifæri,“ segir Dóra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert