Buðu upp á æfingar án öryggisúttektar

Skessan, knatthús FH-inga í Hafnarfirði, verður senn í eigu Hafnarfjarðarbæjar.
Skessan, knatthús FH-inga í Hafnarfirði, verður senn í eigu Hafnarfjarðarbæjar. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki er búið að klára lokaúttekt eða öryggisúttekt á Skessunni, knatthúsi FH, þrátt fyrir að húsið hafi verið vígt 2019. Fjölmörg börn hafa stundað æfingar og íþróttir í húsinu en upp komst um málið þegar FH leitaði til Hafnarfjarðarbæjar um kaup á húsinu árið 2023 sem bæjarstjóri segir líklega fara í gegn á næstu dögum.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir drög að kaupsamningi um kaup á Skessunni nú vera á borði Hafnarfjarðarbæjar og FH.

Getur ekki tjáð sig um innihaldið

Kaupin voru tekin fyrir á fundi bæjarráðs í gær og segir Valdimar samhljóm hafa verið um samninginn.

Hann getur þó ekki tjáð sig um innihald samningsins fyrr en búið er að skrifa undir.

„Það hefur nú komið fram áður að það sé gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun að búið sé að gera ráð fyrir milljarði vegna kaupa á Skessunni og við erum að horfa á það allt saman.“

Verði búið að klára málið eftir tvær vikur

Hann segist núna vera að bera samninginn undir aðra bæjarfulltrúa og telur að finna megi sátt með samninginn hjá íþróttafélaginu.

„Ég tel að þetta sé allt saman að fara að klárast á næstu dögum. Svo þarf að fara með slíkan samning til staðfestingar í bæjarráð og bæjarstjórn þannig ég geri ráð fyrir að á næstu tveim vikum þá verði búið að klára þetta mál.“

Sátt með svör félagsins

Síðast þegar mbl.is ræddi við Valdimar um málið hafði Hafnarfjarðarbær sent spurningalista á FH þar sem krafist var svara frá félaginu í kjölfar skýrslu frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte þar sem farið var yfir framkvæmd úttektar á meðferð fjármuna félagsins.

Dró sú skýrsla upp dökka mynd af bókhaldi félagsins þegar kom að byggingu Skessunnar.

Aðspurður hvort bærinn hafi fengið þau svör sem hann vildi fá frá félaginu segir Valdimar að bærinn telji þau svör félagsins sem hafa borist viðunandi.

„Svo eru bara margar af spurningunum sem svarað er svo innanhúss hjá félaginu gagnvart aðalstjórn. En við værum ekki að ganga til samninga nema við værum orðin nokkuð sátt með þau svör sem að hafa skilað sér.“

Hafa farið ofan í saumana

Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði, lagði fram bókun á bæjarráðsfundi í janúar þar sem hann sagði það ekki hlutverk bæjarsjóðs að bjarga lánardrottnum FH og kallaði eftir að mat yrði lagt á stöðu félagsins í heild. Sem fyrr segir sýndi skýrsla Deloitte að óskipulag og ónákvæmni væri í bókahaldi félagsins.

Spurður hvort málið verði eitthvað skoðað áfram í ljósi þessa segir Valdimar að búið sé að fara ofan í saumana á ýmsum atriðum.

„Við erum búin að vera að ígrunda þetta mjög vel og skoða.“

Hann minnist að það séu rúmir 18 mánuðir síðan að félagið og bærinn hófu samtal um væntanleg kaup og að málið hafi tekið slíkan tíma vegna þess að skoða þurfti alla fleti.

„Vissulega erum við að skoða alla fleti. Það er verið að vinna þetta vel innanhúss hjá okkur með fjármálafólkinu okkar og í samtölum við lánadrottna og fleira.“

Á ábyrgð eigenda

Í bókun Jóns Inga var einnig bent á að ekki væri búið að ganga frá lokaúttekt og öryggisúttekt á húsinu þrátt fyrir að hafa verið tekið í notkun, og gengst bæjarstjórinn við því.

„Það var farið í úttekt þegar við fórum að ræða við FH um væntanleg kaup og það kom í ljós að það átti eftir að klára ákveðna þætti. Þar að lútandi var farið í það á síðasta ári og svo aftur núna í janúar.

Það er í samráði við slökkviliðið. Það hefur tekist að vinna það afskaplega vel og er bara rétt að klárast.“

Segir Valdimar það vera á ábyrgð eigenda hússins að sjá til þess að úttektir séu gerðar.

Ekki búið að klára úttektir á meðan æfingar voru í húsi

Voru þá börn á æfingum þarna inni þegar ekki var búið að gera neina lokaúttekt?

„Já, svo var. Það var ekki búið að klára allar úttektir og það voru æfingar í húsi. Það er alveg rétt.“

Segir Valdimar að enn séu æfingar haldnar í húsinu en það teljist viðunandi að mati bæjaryfirvalda og slökkviliðsins að FH tryggi gæslu meðan á þeim stendur, á meðan verið sé að klára allar úttektir.

„Það er unnið alveg að fullu samráði við starfsfólk bæjarins, slökkviliðið og FH að þetta sé allt saman um öryggi barnanna fyrst og fremst.“

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert