„Ég sé augljós tækifæri í þessu,“ sagði Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík, spurð út í ákvörðun borgarstjóra um að slíta meirihlutasamstarfi í borgarstjórn.
Aðspurð sagði hún ákvörðunina vissulega hafa komið á óvart þó að vissulega hafi verið umræða um að samstarfsflokkarnir væru ekki á alveg sama máli um sum málefni. Það hafi þó legið fyrir frá upphafi.
„Ég bjóst ekki við að þetta yrðu fyrirsagnirnar í kvöld,“ sagði Sanna er blaðamaður ræddi við hana í gærkvöldi.
„Þannig mér finnst þetta dálítið sérstakt, þetta virkar mjög einhliða af hálfu Einars. Af því sem ég hef lesið í fréttum þá virkar eins og þetta hafi skyndilega verið gert og virkar fyrir mitt leyti eins og það sé út frá hagsmunum hans flokks frekar en að standa við gerðan meirihlutasáttmála.“
Sjálf sé hún alls ekki sammála öllu sem fram komi í þeim meirihlutasáttmála en þyki afleitt að í stefni að Framsókn myndi hægri meirihluta í kjölfarið.
Hún sjái kjörið tækifæri til þess að ræða nýjan meirihluta á vinstri vængnum og kveðst vera að melta stöðuna með sínu fólki.
„Ég get alveg sagt það að ég er búin að vera í símanum í kvöld.“