Einhugur sé um flugvöllinn í Vatnsmýrinni í bili

Kristrún segir betri kost fyrir flugvöllinn ekki hafa fundist.
Kristrún segir betri kost fyrir flugvöllinn ekki hafa fundist. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir einhug um það í ríkisstjórn að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni þar til betri kostur finnst. 

„Það var rætt um það í samningaviðræðum þessarar ríkisstjórnar og það er einhugur um það að flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni þar til annar eða betri kostur finnst. Og sá annar eða betri kostur hefur ekki ennþá fundist,“ segir Kristrún.

Er það ekki alveg í samræmi við áætlanir samflokksfólks Kristrúnar í borginni, en um ára­bil hef­ur meiri­hlut­inn, undir forystu Samfylkingarinnar, unnið eft­ir þeirri stefnu að flug­völl­ur­inn skuli burt úr Vatns­mýr­inni. 

Sú umræða hélt áfram jafn­vel eft­ir að elds­um­brot hóf­ust á Reykja­nesskaga í næsta ná­grenni við Hvassa­hraun, þar sem meiri­hlut­inn hef­ur fram til þessa séð fyr­ir sér framtíðar­heim­ili hans.

Sagði hrikta í stoðum meirihlutans

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði það sama og Kristrún á opnum fundi um stöðu og framtíð Reykjavíkurflugvallar á Hótel Reykjavík Natura á fimmtudag, að einhugur ríkti um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. Hann tók þó ekki fram, líkt og forsætisráðherra, að þannig yrði það þar til betri staðsetning fyndist.

Í vikunni studdu Einar Þorsteinsson borgarstjóri og aðrir borg­ar­full­trú­ar Fram­sókn­ar til­lögu Sjálf­stæðis­flokks­ins varðandi áfram­hald­andi veru flug­vall­ar­ins í Vatns­mýri, og breyt­ingu á aðal­skipu­lagi þar að lút­andi. Hingað til hafa til­lög­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins ekki fengið braut­ar­gengi á vett­vangi borg­ar­inn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka