Guðrún býður sig fram til formanns

Guðrún Hafsteinsdóttir hlaut mikið lófatak eftir að hún tilkynnti um …
Guðrún Hafsteinsdóttir hlaut mikið lófatak eftir að hún tilkynnti um framboð sitt. mbl.is/Ólafur Árdal

Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að bjóða sig fram til formanns á komandi landsfundi flokksins.

Þetta tilkynnti hún rétt í þessu á fundi í Salnum í Kópavogi.

Mun Guðrún bjóða sig fram gegn Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem tilkynnti framboð sitt til formanns 26. janúar.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram 28. febrúar til 2. mars.

„Það er mín niðurstaða eftir að hafa ígrundað málið vel að reynsla mín og þekking, gildi mín og einlægur vilji til að vera sameinandi afl muni nýtast flokknum vel í það mikilvæga verkefni sem fram undan er: Að leiða Sjálfstæðisflokkinn til farsællar framtíðar og vinna Íslandi heilt.

Með þetta að leiðarljósi, að byggja upp, skapa samstöðu og ná árangri, tek ég auðmjúk við hinum fjölmörgu áskorunum sem mér hafa borist og ég býð fram krafta mína til að leiða Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði Guðrún undir lok ræðu sinnar.

Komin úr bílstjórasætinu í aftursætið

Sagði hún að upp á síðkastið hefði hún fengið ótal skilaboð, kveðjur og áskoranir víðsvegar að af landinu um að gefa kost á sér í embætti formanns.

Jafnframt hafi hún átt samtöl við fjölda fólks, bæði innan og utan flokksins, sem segist vilja sjá Sjálfstæðisflokkinn sterkan.

Sagði hún flokkinn nú í vanda staddan og á ákveðnum krossgötum.

„Við fengum fyrr í vetur verstu kosninganiðurstöðu í sögu flokksins. Við erum ekki lengur í ríkisstjórn og að sumu leyti erum við komin úr bílstjórasætinu í aftursætið í íslenskum stjórnmálum. Þessu viljum við breyta. Þessu ætlum við að breyta,“ sagði Guðrún.

Tók hún þó sérstaklega fram að hún væri ekki að varpa rýrð á neinn, allra síst Bjarna Benediktsson, fráfarandi formann.

Þurfa að opna faðm flokksins

Lykillinn að breytingunni er að sögn Guðrúnar að opna faðm flokksins og að gera hann þannig aftur að breiðfylkingu borgaralegra afla á Íslandi.

Þá þurfi að laða aftur til flokksins fólk sem hafi af ýmsum og ólíkum ástæðum fundið sér annan pólitískan samastað á síðustu árum.

„Um leið og við sækjum nýjan stuðning til nýrra kynslóða. Og þetta gerum við með því að sækja í grunngildi Sjálfstæðisflokksins. Við þurfum að finna aftur okkar kjarna.“

„Gildi sjálfstæðisstefnunnar eru mér í raun í blóð borin“

Guðrún sagði frá sögu föður síns og baráttu hans við valdakerfið sem þá var við lýði. Hann rak ostagerð sem var gert ómögulegt að starfa í þáverandi rekstrarumhverfi.

Fór svo að ostagerðin var neidd í þrot og stofnaði hann í kjölfarið ísgerðina Kjörís. Þegar Guðrún var 23 ára varð faðir hennar bráðkvaddur og tók hún þá við rekstri fyrirtækisins.

Sagði hún að barátta fjölskyldu hennar fyrir viðskiptafrelsi á Íslandi hafi mótað sig, sín gildi og sínar hugsjónir, og verið sér ómetanlegt veganesti um lífsins veg.

„Ég hef af eigin raun upplifað hversu mikilvægt frelsið er og hversu miklar afleiðingar það getur haft ef það er brotið á bak aftur.

Ég hef líka lært hvernig framtak einstaklingsins getur skapað ótal tækifæri, bara ef það fær að lifa og blómstra. Gildi sjálfstæðisstefnunnar eru mér í raun í blóð borin.“

Guðrún Hafsteinsdóttir sækist eftir formannsembætti Sjálfstæðisflokksins.
Guðrún Hafsteinsdóttir sækist eftir formannsembætti Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Skjáskot

Hringferð til að ræða við flokksmenn sína

Í lok ræðu sinnar sagði Guðrún frá því að á mánudaginn muni hún hefja ferð sína í kringum landið til þess að ræða við sjálfstæðismenn.

Skoraði hún sjálfstæðismenn til þess að taka virkan þátt í málefnastarfi flokksins í aðdraganda landsfundar.

„Ef við leggjum öll sem eitt krafta okkar í að móta enn frekar okkar stefnu byggða á okkar sígildu og góðu gildum þá er framtíðin björt, fyrir þjóðina og hún er björt fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

Margt var um manninn á fundi Guðrúnar.
Margt var um manninn á fundi Guðrúnar. mbl.is/Skjáskot
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert