Líf Magneudóttir segir augljóst að Einar Þorsteinsson borgarstjóri hafi eitthvað misreiknað sig er hann sleit meirihlutasamstarfi við Pírata, Samfylkinguna og Viðreisn í gær.
„Ég veit ekki hvað hann sá fyrir sér en hann hefur greinilega reiknað allt vitlaust.“
Sjáið þið tækifæri í því að ná Flokki fólksins á ykkar band og ná að mynda meirihluta á vinstri vængnum.
„Það er náttúrulega bara óskastaðan fyrir okkur Vinstri græn að starfa með flokkum sem eru vinstra megin í lífinu eðli málsins samkvæmt.“
Hún segir engar formlegar viðræður hafnar en að auðvitað séu allir að tala. VG og Sósíalistar gáfu einnig frá sér yfirlýsingu fyrr í dag og kváðust tilbúin til viðræðna um myndun nýs meirihluta við þá sem deila þeirra sýn í borgarmálunum.
Kveðst Líf útiloka samstarf milli VG og Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins.
„Það er fullt af fólki þarna innanborðs sem ég get átt í góðu samstarfi við, en þegar þú tekur pakkann þá er hann bara ekki hagfelldur fyrir okkar málefnastöðu. Við eigum enga samleið.