„Það sem virðist vera skýrt í þessu alla vega er að plan borgarstjóra virðist ekki vera að ganga upp,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í borginni, spurð hvort hún sjái fyrir sér að ná Flokki fólksins á sitt band.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins sagði flokkinn ekki munu taka þátt í að leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda í borginni eftir að Einar Þorsteinsson, borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins, bauð Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Flokki fólksins til viðræðna um myndun nýs meirihluta í gærkvöldi.
„Það virðist vera að hann hafi verið búinn að teikna eitthvað upp en það virðist ekki vera að ganga upp þar.“
Segir Sanna Sósíalistaflokkinn nú ræða hvað sé í stöðunni og hugsi nú næstu skref út frá tíðindunum hratt og örugglega.
Spurð hvort samstarf með Framsóknarflokknum myndi koma til greina kveðst hún ekki sjá fyrir sér að Sósíalistar leiti þangað.
„Í ljósi þess sem við höfum verið að horfa upp á þar sem Einar var leiðtogi meirihlutans. Þar myndi ég trúa að þurfi að ríkja ákveðið traust og opin og heiðarleg samskipti. Af því sem ég hef séð finnst mér það ekki hafa átt við í hans tilfelli.“