Skúli Helgason borgarfulltrúi Samfylkingar segir „alla vera að tala saman“ en hlutirnir séu ekki komnir á það stig að fjölflokkastjórn á vinstri vængnum sé í burðarliðnum. Hann útilokar ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en segir augljóst að það sé ekki fyrsti kostur.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins útilokaði fyrr í dag samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í borginni. Fyrir vikið er komin upp snúin staða í ljósi þess að Sjálfstæðismenn, Framsókn, Viðreisn og Flokkur fólksins munu ekki ná að mynda stjórn.
Einn möguleikinn á meirihlutasamstarfi í borginni er fjölflokkastjórn á vinstri vængnum með Flokki fólksins og Viðreisn. Skúli segir slíkar umleitanir ekki langt komnar.
„Það er allt á frumstigi og ekkert að fara að skýrast á næstunni, enda möguleikarnir nokkuð margir enn,“ segir Skúli.
„Það er ekkert komið áfram. Menn eru kannski búnir að taka frumsamtöl en ekkert meira en svo,“ segir Skúli.
Útilokið þið Sjálfstæðisflokkinn frá samstarfi?
„Hann er ekki okkar fyrsti kostur en við erum náttúrlega í borgarstjórn og berum mikla ábyrgð og það þarf að tryggja það að það sé starfshæfur meirihluti í borginni. En það kemur engum á óvart að hann sé ekki okkar fyrsti kostur,“ segir Skúli