Verk boðin út við Hvammsvirkjun

Svona myndi Hvammsvirkjun líta út samkvæmt tölvuteikningu frá Landsvirkjun.
Svona myndi Hvammsvirkjun líta út samkvæmt tölvuteikningu frá Landsvirkjun. Tölvumynd/Landsvirkjun

Í gangi er vinna við lagningu aðkomuvegar að Hvammsvirkjun og efnisvinnsla sem því verkefni tengist, en samkvæmt upplýsingum frá Ólöfu Rós Káradóttur, yfirverkefnastjóra Hvammsvirkjunar hjá Landsvirkjun, er áformað að því verkefni ljúki á þessu ári.

Nú er í gangi útboð á vélbúnaði vegna virkjunarinnar sem og bygging vinnubúða sem ætlað er að hýsa starfsmenn sem starfa munu við virkjunarframkvæmdirnar.

Þá er útboð jarðvinnu fyrirhugað sem og byggingavirkis, loka, þrýstipípa og eftirlits, en stefnt er að því útboði á öðrum fjórðungi þessa árs. Í sumar er síðan áformað að bjóða út spenna, strengi og ýmsan raf-, stjórn- og varnarbúnað.

Landsvirkjun er með gilt framkvæmdaleyfi fyrir þeim framkvæmdum sem nú standa yfir vegna Hvammsvirkjunar. Virkjunarleyfið sjálft var hins vegar fellt úr gildi með umdeildum dómi héraðsdóms nýverið, sem taldi Umhverfisstofnun ekki hafa heimild til að leyfa breytingar á vatnshloti árinnar. Engar framkvæmdir eru hafnar í farvegi Þjórsár sem dómur héraðsdóms laut að.

Landsvirkjun áfrýjaði dómnum og óskað eftir að málið færi beint til Hæstaréttar. Telur fyrirtækið dóminn rangan í meginatriðum og brýnt að Hæstiréttur fjalli um málið til að eyða óvissu. Verður áfrýjuninni haldið til streitu.

Kveðst fyrirtækið fagna skýrum vilja stjórnvalda sem, eins og fram hefur komið, ætla að leggja fram frumvörp til að koma í veg fyrir að sams konar aðstæður geti komið upp og vonast til að þau mál fái skjóta afgreiðslu. Það breyti þó ekki því meginsjónarmiði að fá endanlega niðurstöðu fyrir dómstólum, enda miklir hagsmunir undir.

Fyrirtækið er nú með til skoðunar hvort fyrirhuguðum útboðum verði frestað í ljósi stöðunnar í leyfismálum Hvammsvirkjunar, en þó að framkvæmdaleyfi sé í gildi hefur það verið kært til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem það bíður afgreiðslu.

Þá er áformuð lagning nýs Búðafossvegar og brúar yfir Þjórsá, en Vegagerðin er framkvæmdaaðili í því verkefni. Aðkoma Landsvirkjunar er að útvega efni til framkvæmdarinnar og fjármagna hana. Óljóst er hvenær framkvæmdir hefjast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert