Gular viðvaranir í dag og á morgun

Gular viðvaranir verða í nokkrum landshlutum.
Gular viðvaranir verða í nokkrum landshlutum. Kort/Veðurstofa Íslands

Gular viðvaranir Veðurstofunnar taka í gildi í dag fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra og Miðhálendið.

Þær fyrstu taka í gildi klukkan 10 sunnudagsmorgun og þær síðustu falla úr gildi á hádegi á morgun, mánudag.

Á Miðhálendinu er spáð suðvestanstormi, 18-23 m/s með vindhviðum allt að 40-45 m/s við fjöll. Er þar varasamt ferðaveður.

Í öðrum landshlutum þar sem varað er við veðri er spáð sunnanhvassviðri, 13-20 m/s, hvassast á fjallvegum. Vindhviður allt að 35 m/s við fjöll. Veðurstofan segir veðrið varsamt þeim ökutækjum sem taka á sig vind.

Hlýnandi veður

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar kemur fram að næstu daga verði suðlægar áttir með mildu lofti á landinu. Spáð sé vætusömu veðri víða um land en lengst af þurrt norðaustanlands.

Rigning með köflum verði á sunnan- og suðvestanverðu landinu, en slydda eða snjókoma norðvestan til.

Hins vegar verði þurrt að kalla um landið norðaustanvert. Veður fari hlýnandi, hiti 4 til 7 stig seinnipart dags.

Rigning eða súld

Á morgun verður rigning eða súld með köflum sunnan- og vestanlands. Þurrt að mestu á Norðausturlandi.

Síðdegis dregur aðeins úr vindi, sunnan 8-15 m/s um kvöldið, hvassast norðan til, hiti 4-8 stig.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert