Einar Þorsteinsson borgarstjóri lýsti erfiðu samstarfi meirihlutans í borginni á kjörtímabilinu á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Sagðist hann vera sáttur með ákvörðunina að slíta samstarfinu þrátt fyrir að útlit sé fyrir að hann verði ekki með í nýjum meirihluta.
Einar sagði í viðtalinu að eftir sveitastjórnakosningarnar hafi honum hugnast að mynda meirihluta til hægri, en þetta hafi verið það eina sem var í boði.
Sagði hann að í meirihlutasamstarfinu hafi Framsóknarflokkurinn einna helst mætt andstöðu frá Pírötum í húsnæðismálum og Samfylkingu vegna hagræðingartillagna.
Hagræðingartillögur flokks hans hafi mætt andstöðu innan meirihlutans og sagði hann að Framsókn hefði viljað beita fjölbreyttari leiðum í leikskólamálum.
Að lokum hafi hrikt í baklandi Samfylkingarinnar vegna þess hvernig Framsókn fór fram í umræðu um flugvallarmálin. Þá hafi Samfylkingin fyrst borið upp hugmyndina að slíta meirihlutanum.
„Ég var sakaður um að það að tala ekki fyrir stefnu meirihlutans og að þetta væri árás á Samfylkinguna,“ sagði Einar.
Þá hafi runnið upp fyrir framsóknarmönnum að þeir kæmust ekki lengra í sínum málum og varð það svo að Einar sleit samstarfinu á föstudagskvöld.
Spurður um það hvort meirihlutaviðræður með Framsókn í fararbroddi hafi runnið út í sandinn sagði Einar að nú væru „allir að tala við alla“.
„Ef að vinstri flokkarnir mynda fimm flokka meirihluta þá er það bara þannig,“ sagði Einar.
Spurður hvort hann hafi misreiknað stöðuna er hann sleit samstarfinu sagði Einar: „Nei, alls ekki, ég er bara mjög ánægður“.
Sagðist hann þó ekki búinn að afskrifa það að mynda meirihluta.
Sagði hann að miklir möguleikar væru fyrir Flokk fólksins til að láta til sín taka þrátt fyrir mögulegan meirihluta með Sjálfstæðisflokknum sem Ingu Sæland, formanni flokksins, hugnast ekki að koma til valda.
Einar sagði að það væri einmitt vegna þess að Inga er með félags- og húsnæðismálaráðuneytið, og flokkurinn yrði þá við stjórnvölinn bæði á Alþingi og í borginni, sem að Flokkur fólksins gæti látið til sín taka í húsnæðismálum.