Segir afstöðuna hafa komið flokknum að óvörum

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og Inga Sæland, formaður …
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Samsett mynd

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir ákvörðun Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, um að slá samstarf í borgarstjórn af borðinu hafa komið flokknum í opna skjöldu.

„Við Sjálfstæðismenn höfum átt gríðarlega gott samstarf við Flokk fólksins í borgarstjórn á síðustu árum og hvergi borið skugga á. Þannig að yfirlýsingar þeirra koma okkur auðvitað svolítið að óvörum,“ segir Hildur í samtali við mbl.is. 

Hildur segir að sem stærsti flokkurinn í borginni útiloki Sjálfstæðisflokkurinn ekki samstarf við aðra flokka. „Við höfum aldrei unnið eftir því að útiloka nokkurn annan, heldur erum við reiðubúin að leiða saman ólíka flokka, og lítum fyrst og fremst á verkefnin.“

Hún telur að þegar svo stutt sé eftir af kjörtímabilinu, sé nauðsynlegt að myndaður sé meirihluti sem geti tekist á við mikilvægustu og stærstu verkefnin.

Dyr Sjálfstæðisflokksins standi enn opnar

Hildur segir að ýmis mikilvæg verkefni bíði borgarinnar, þar á meðal daggæslumál, húsnæðismál og ákvarðanir varðandi Reykjavíkurflugvöll. Þá hafi að hennar mati verið mikill samhljómur meðal þeirra flokka sem funduðu um helgina um mörg þessara verkefna. 

„Þarna er hægt að ná samstöðu um þessar breiðu línur verkefna. Þó að grasrót Flokks fólksins hafi tekið afstöðu í gær þá standa mínar dyr enn opnar. “

Aðspurð hvort Sjálfstæðiflokkurinn hafi íhugað viðræður við aðra flokka en Framsókn segir Hildur að eðli málsins samkvæmt þurfi flokkurinn núna að íhuga það, þó að það sé ekki fyrsti kostur.

„Það er alltaf fyrsti kostur í mínum huga að reyna til þrautar að mynda þann meirihluta sem var til skoðunar núna um helgina. Það er sá meirihluti sem ég hef mesta trú á að geti ráðist í þessi nauðsynlegu verkefni og komið hér á einhverjum breytingum, þó stuttur tími sé eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert