Skoða meirihlutasamstarf með öðrum flokkum

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir hugmyndina um …
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir hugmyndina um meirihluta Framsóknar, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins og Flokk fólksins í borgarstjórn vera af borðinu. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir meirihlutasamstarf Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Flokks fólksins í borgarstjórn ekki lengur koma til greina eftir að formaður Flokks fólksins greindi frá afstöðu sinni í gær. 

Viðreisn sé nú að skoða aðra möguleika varðandi myndun nýs meirihluta.

Mögulegur meirihluti af borðinu

„Þessar viðræður um mögulegan nýjan meirihluta slitnuðu í gærkvöldi.“

Þórdís Lóa segir að ný staða sé komin upp. Viðreisn sé að skoða aðra möguleika en ekkert sé borðfast. 

„Ég hef sannarlega verið í samskiptum við kollega mína oddvita úr hinum ýmsu flokkum í morgun. En nú eru bara þreifingar í gangi, við förum bara í það núna að taka stöðuna. Dagurinn í gær fór í það að tala við baklandið okkar og þá skýrast línur eins og gerðist hjá Flokki fólksins þegar þeir tóku það fram að þeir gætu ekki hugsað sér að vinna með Sjálfstæðisflokknum.“

„Við berum ábyrgð á að finna lausn“

Þórdís Lóa segir að þótt margt hafi komið fram um helgina sem hefti samstarf milli ákveðinna flokka sé mikilvægt að finna lausn.

„Við erum með yfirlýsingu frá Vinstri grænum og Sósíalistum um að þeir vilji standa saman, og það komu yfirlýsingar í gær um hverjir gætu ekki unnið með Framsókn og hverjir gætu ekki unnið með Sjálfstæðisflokknum. Þetta eru breytur í spilið en ég hef samt sem áður þá trú að við getum ekki verið mjög útilokandi í sveitarstjórnum. Við berum ábyrgð á að finna lausn. Við getum ekki haft borgina óstjórntæka í eitt og hálft ár, þannig við verðum að finna lausn á þessu.“

Bendir hún á að lausnin við þessu geti verið á marga vegu, t.d. með starfsstjórn, eða að fólk fari úr flokkum og vinni þvert á flokka og óháð þeim.

„Svo er enn fullt af möguleikum um samstarf flokkanna í borgarstjórn.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert