Varað við grjóthruni og skriðum fyrir vestan

Uppsöfnuð úrkoma á næstu 48 klukkustundum.
Uppsöfnuð úrkoma á næstu 48 klukkustundum. Kort/Veðurstofa Íslands

Auknar líkur eru á skriðum og grjóthruni á Vestfjörðum í dag vegna vatnavaxta í ám og lækjum.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands má gera ráð fyrir vætu víða um land einkum á Vestfjörðum og Snæfellsnesi.

Hefur einnig hlýnað talsvert í lofti og er hitastig allt að 5°C, sem eykur yfirborðsrennsli vegna leysinga.

Varað við að dvelja í bröttum hlíðum

Í kjölfar úrkomunnar má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum og geta farvegir sem venjulega eru vatnslausir fyllst.

Yfirborðshreyfingar eins og grjóthrun, farvegabundnar aurskriður og jarðvegsskriður geta átt sér stað fyrirvaralaust og skyndilega. Er því varað við að dvelja undir bröttum hlíðum og er ástæða til að sýna aðgát á vegum landsins, sérstaklega á Vestfjörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert