Alls eru 154 einstaklingar sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd á Íslandi skráðir týndir í kerfum lögreglunnar og fara huldu höfði hér á landi. Þetta kemur fram í svari Ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Hælisleitendur sem fengið hafa endanlega synjun um alþjóðlega vernd eru 367 alls og eru áðurnefndir 154 einstaklingar inni í þeirri tölu. Segir Ríkislögreglustjóri að þeir sem hafi fengið endalega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, hafi verið á landinu í mislangan tíma. Elsta verkbeiðnin um brottflutning er frá ágúst 2020 en flestar beiðnirnar frá árinu 2024.
Er lögreglan sögð hafa upplýsingar um dvalarstað flestra þeirra sem ekki eru skráðir týndir, eða er í samskiptum við þá með einhverjum hætti. Hinir hælisleitendurnir 154 leika aftur á móti lausum hala í landinu.
Af þeim 367 einstaklingum sem fengið hafa endanlega synjun eru flestir frá Venesúela, 82, næstflestir eru frá Sómalíu, 48, en frá Írak og Nígeríu eru 39 einstaklingar.
Frá Afganistan er 21, 20 frá Palestínu, 13 frá Úkraínu, 10 frá Georgíu, 8 frá hverju landi um sig; Alsír, Líbíu og Pakistan, 7 eru frá Gíneu og 6 frá Albaníu. Fimm eða færri einstaklingar komu frá öðrum 30 löndum.
Auk upplýsinga um framangreint var Ríkislögreglustjóri spurður um kostnað ríkisins af ólögmætri dvöl hælisleitenda hér á landi sl. þrjú ár, þ.e. árin 2022, 2023 og 2024. Ekki fékkst svar við þeirri spurningu, þar sem embættið kvaðst ekki getað svarað fyrir heildarkostnað ríkisins af þeim sökum, þar sem kostnaðurinn félli á ýmsar stofnanir hins opinbera.
Nýverið féll dómur í Landsrétti yfir hælisleitanda sem neytt hafði allra bragða til að komast hjá brottvísun. Hafði sá verið í ólögmætri dvöl hér á landi í hálft fimmta ár.