Alfreð Erling Þórðarson, 45 ára Norðfirðingur, sem ákærður er fyrir að verða hjónunum Björgvini Ólafi Sveinssyni og Rósu G. Benediktsdóttur að bana 21. ágúst á síðasta ári mun ekki gera frekar grein fyrir þeim verknaði sem hann er ákærður fyrir.
Aðalmeðferð í málinu hófst í dag fyrir Héraðsdómi Austurlands en þinghald fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Talsverður fjöldi aðstandenda hjónanna var mættur í þingsal í morgun.
Alfreð mætti til skýrslutöku en þegar honum var gefinn kostur á að skýra málsatvik betur kvaðst hann vilja vísa til þeirra skýrslna sem teknar höfðu verið af honum áður. Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari spurði Alfreð þó ítrekað hvort hann vildi ekki gera frekar grein fyrir málsatvikum eða ræða nánar geðmat á honum
Neitaði ákærði því.
Alfreð klæddist hettupeysu og íþróttabuxum og var í appelsínugulum sokkum merktum Landspítalanum. Hann var þvoglumæltur og stuttur í spuna er hann svaraði spurningum saksóknara. Hann kom inn að aftan í fylgd tveggja lögreglumanna.
Arnþrúður spurði því næst hvort hann vildi gera grein fyrir því hvernig hann þekkti hjónin. Sagði hann þau hafa átt rollur á sveitabæ foreldra sinna, og að hann þekkti syni þeirra. Hann sagðist ekki hafa áður verið mikið í samskiptum við hjónin og ekki komið á heimili þeirra í mörg ár.
Spurður að því hvort hann hefði lesið öll gögn málsins sagðist Alfreð hafa lesið eitthvað af þeim, en ekki allt. Spurður að því hvort hann hefði lesið skýrsluna sem lögregla tók af honum taldi hann sig hafa gert það.
Til stóð að sækjandi málsins myndi bera nokkur myndskeið undir Alfreð en kvaðst hann ekki telja neina ástæðu til þess.
Alfreð er ákærður fyrir að hafa 21. ágúst á síðasta ári veist að Björgvini og Rósu með hamri. Á hann að hafa slegið þau bæði ítrekað í höfuðið með þeim afleiðingum að þau létust af áverkum sínum.