Djúpar og miklar holur: Sækja tug bíla á heiðina

„Mál es vílmögum at vinna erfiði,“ segir í kvæðinu Bjarkamálum …
„Mál es vílmögum at vinna erfiði,“ segir í kvæðinu Bjarkamálum hinum fornu og má vel heimfæra upp á þá feðga á Bílaverkstæði Jóhanns í Hveragerði sem nú hafa í nógu að snúast vegna tjónaðra bíla ofan af heiði. Það er Þórarinn Jóhannsson sem stendur við dráttarbifreiðina. Ljósmynd/Kjartan Smári Jóhannsson

„Á föstudaginn voru þetta fjórir bílar sem við græjuðum neðst í Kömbunum og núna erum við búnir að sækja sex með kranabíl og bíða þrír-fjórir í viðbót,“ segir Kjartan Smári Jóhannsson, einn eigenda Bílaverkstæðis Jóhanns í Hveragerði þar sem ekki hefur skort verkefnin vegna sprunginna dekkja og raunar fleiri skemmda á bílum á Hellisheiðinni.

Eru það djúpar og miklar holur á heiðinni er komið hafa ökumönnum í opna skjöldu síðustu daga og varar Vegagerðin við því á umferðarvef sínum í færslu síðan í morgun að margt sé slæmra holna á Hellisheiðinni, vegfarendur í framhaldinu beðnir að aka með gát.

Hríðarveður á Hellisheiði í desember. Nú er það götótt malbikið …
Hríðarveður á Hellisheiði í desember. Nú er það götótt malbikið sem gerir ökumönnum þar skráveifu nokkra. mbl.is/Óttar Geirsson

Aðspurður kveður Kjartan eitt dæmi vera um skakka felgu „og ein gömul Honda var með brotna fjöður“, segir hann og játar að um óvenjulega holskeflu sé að ræða hjá þeim feðgum, Jóhanni, Þórarni og honum sjálfum.

„Við höfum ekki lent í svona miklu áður, það hafa kannski verið svona tveir-þrír bílar stundum, en ekki tugir. Ég sé það líka á Hvergerðingaspjallinu [á Facebook] að röð af bílum var þarna stopp,“ segir Kjartan og bætir því við að lokum að kranabílstjóri fyrirtækisins sé í þessum orðum töluðum uppi á heiði að sækja næsta viðskiptavin þeirra feðga á verkstæðinu til að dytta að bíl hans og svo koll af kolli svo vegfarendur komist leiðar sinnar eftir skakkaföll á heiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert