Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kannaði ástand ökumanna í tengslum við úrslitaleikinn um Ofurskálina, Superbowl, sem fram fór í New Orleans í Bandaríkjunum í nótt.
Lögreglan setti upp eftirlitspóst og kannaði ástand og ökuréttindi ökumanna. 195 ökumenn voru stöðvaðir og reyndust tveir undir áhrifum.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Fimm gista fangageymslur nú í morgunsárið.
Eitthvað var um hávaðatilkynningar frá heimahúsum vegna úrslitaleiksins um Ofurskálina. Tilkynnt var um þjófnað á veitingastað í hverfi 101 og voru tveir handteknir.
Þá var tilkynnt um eignaspjöll í hverfi 101. Tveir aðilar voru handteknir, grunaðir um verknaðinn.
Ekið var á gangandi vegfaranda í hverfi í Hafnarfirði. Ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum. Hann var vistaður í fangageymslu uns hægt verður að ræða við hann. Einn var fluttur slasaður á slysadeild til frekari aðhlynningar.
Lögreglan fékk tilkynningu um ölvaðan einstakling sem var til ama í Garðabæ. Sá var ekki samvinnuþýður þegar lögregla kom til að aðstoða hann. Hann neitaði að gefa upp nafn og kennitölu og var því vistaður í fangaklefa þar til ástand hans skánar.