Fundur hófst í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga í Karphúsinu klukkan níu í morgun.
Ríkissáttasemjari reifaði ákveðnar hugmyndir fyrir helgi um hvernig mætti leysa deiluna og ætluðu deiluaðilar að gefa sér helgina til að fara yfir þær.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is fyrir fundinn að þær hugmyndir væru enn til skoðunar hjá sambandinu.
Það ætti eftir að koma í ljós hvort sveitarfélögunum hugnuðust þær.
„Við erum ekki alveg búin að ná landi í því. Við þurfum aðeins að skoða það betur.“
Hún sagðist gera ráð fyrir því að hugmyndir ríkissáttasemjara yrðu ræddar áfram í dag.
Inga hefur áður sagt að að sveitarfélögin hafi teygt sig eins og langt og þau geti í sambandi við launahækkanir til kennara. Hún segir hugmynd ríkissáttasemjara því ekki fela í sér tilboð um frekari hækkanir.
Í gær skilaði Félagsdómur þeirri niðurstöðu að verkföll kennara í leik- og grunnskólum væru ólögmæt, þar sem þau þurfa að ná til allra starfsmanna í viðkomandi stéttarfélagi hjá þeim vinnuveitanda sem verkfallið beinist gegn.
Í tilfelli kennara eru það sveitarfélögin. En verkfallsaðgerðir kennara hafa hingað til aðeins beinst gegn nokkrum skólum innan hvers sveitarfélags.
Inga vonar að dómurinn komi ekki til með að hafa áhrif á viðræðurnar.
„Við höfum sama rétt og Kennarasambandið að leita réttar okkar og ég vona að þeir virði það, alveg eins og þegar þeir gera það, þá virðum við þá niðurstöðu.“
Hún fagnar að sjálfsögðu niðurstöðunni.
„Já, það var mjög gott að fá úr þessu skorið, þannig að það var auðvitað góð niðurstaða.“
Spurð hvort hún geri þá ekki ráð fyrir að kennarar grípi til allsherjar verkfalla segir Inga:
„Það er auðvitað þeirra val, þetta snýst um að spila leikinn rétt og samkvæmt lögum. Við erum öll í því núna.“
Þannig þið komið til fundar hóflega bjartsýn á hvert framhaldið verður?
„Verkefnið fer ekkert frá okkur og við þurfum að leysa það og ná saman. Það eru allir að vinna að því.“
Gerirðu þér vonir um að þessar hugmyndir ríkissáttasemjara nái ykkur saman á næstunni?
„Það verður bara að koma í ljós.“
Ertu bjartsýn fyrir daginn í dag?
„Ekkert sérstaklega, en vona auðvitað það besta.“
Spurð út í meinta aðkomu menntamálaráðherra að kjaradeilunni um þarsíðustu helgi, þegar reynt var að afstýra verkföllum, segist Inga ekki getað tjáð sig um það mál. Samninganefndin beri aðeins ábyrgð á því sem gerist við samningaborðið, þeirra tillögum og tilboðum.
Hún staðfestir þó að það sem Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is, að kennarar hefðu mætt til fundar í Karphúsið með þær fréttir að þeir vissu að hægt væri að bjóði frekari launahækkanir en lágu á borðinu.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, gaf ekki færi á viðtali áður en fundur hófst í morgun.