Félagsdómur klofnaði í máli kennara

Kennarar fagna formanni Kennarasambands Íslands á samstöðufundi í Háskólabíó í …
Kennarar fagna formanni Kennarasambands Íslands á samstöðufundi í Háskólabíó í haust. mbl.is/Árni Sæberg

Félagsdómur klofnaði í afstöðu sinni til lögmætis verk­falla Kenn­ara­sam­bands Íslands í þrett­án leik­skól­um og sjö grunn­skól­um.

Dómararnir Halldóra Þorsteinsdóttir og Karl Ó. Karlsson telja ákvæði stjórnarskrár sbr. ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu leiða að því að ekki sé unnt að takmarka verkfallsrétt stéttarfélaga einungis með fyrirmælum settra laga.

Heldur verði slík takmörkun að helgast af nauðsyn vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til að koma í veg fyrir glundroða eða glæpi, til verndar heilsu eða siðgæðis fólks, réttindum þess og frelsis.

Tekist á um skilgreiningu á vinnuveitanda

Meirihluti dómsins, dómararnir Björn L. Bergsson, Ragnheiður Bragadóttir og Eva Bryndís Helgadóttir, komust sem kunnugt er að þeirri niðurstöðu að einungis eitt verkfall af þeim sem Kennarasamband Íslands boðaði til samræmist ákvæðum laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ákvæði um að verkföll taki til allra starfsmanna í stéttarfélagi hjá þeim vinnuveitanda sem verkfallið beinist gegn.

Efnislegur ágreiningur í málinu nær meðal annars til þess hver skilgreinist vinnuveitandi kennara sem starfa fyrir sveitarfélag. Meirihluti dómsins komst að því að aðeins geti sveitarfélagið skilgreinst sem vinnuveitandi en ekki einstaka skólar eða leikskólar.

Eðlismunur ríkis og sveitarfélaga breyti ekki forsendum

Halldóra bendir á í séráliti sínu, sem Karl styður, að í dómi Félagsdóms í máli nr. 11/2015 hafi niðurstaða dómsins verið að einstaka ríkisstofnanir teldust atvinnurekendur og vinnuveitendur starfsmanna en ekki ríkið sjálft.

Segir hún að þótt í málinu sé um að ræða sveitarfélög en ekki ríkið fái sá eðlismunur á málinu ekki réttlætt að vikið sé frá forsendum Félagsdóms um að stéttarfélög geti boðað til staðbundinna vinnustöðvana með þessum hætti.

Inga Rún Ólafs­dótt­ir, formaður samn­inga­nefnd­ar Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, segir dóminn ekki hafa nein áhrif á kjaraviðræðurnar sjálfar. Segir hún mik­il­vægt að fá leyst úr ágrein­ings­mál­um fyr­ir Fé­lags­dómi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert