Endurbætur á íbúðarhúsi forseta Íslands kostuðu rúmar 120 milljónir.
Í upphaflegri kostnaðaráætlun var gert ráð fyrir 86 milljónum, að því er fram kemur í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn ríkisútvarpsins.
Mesti kostnaðurinn var við nýjar innréttingar og uppsetningu þeirra. Nam sá hluti um 45 milljónum.
Fram kemur í umfjöllun RÚV að vegna breyttra fjölskylduaðstæðna hafi þurft að aðlaga húsnæðið, en sex manna fjölskylda flutti út og hjón með tvö uppkomin börn fluttu inn.
Að sögn ráðuneytisins fólu framkvæmdir í sér venjubundið viðhald en viðgerðir á neysluvatnslögnum voru kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir. Lagnahreinsun, viðgerðir á lagnakerfi og hreinlætis- og blöndunartæki kostuðu tæpar 12,5 milljónir.
Ráðist var meðal annars í allsherjarendurnýjun á innréttingum hússins. Ný gaseldavél keypt fyrir tæpa hálfa milljón króna og ísskápur og frystir kostuðu um 780 þúsund. Þá kostaði ný uppþvottavél 350 þúsund.
Veggfóður og veggfóðrun kostaði um fjórar milljónir og rúmar 12 milljónir fóru í lýsingar, gardínur og rafmagnsvinnu.
Flutningur og trygging á búslóð forsetahjónanna nam þá um 5,7 milljónum króna.