Í bestum málum ef illa gengur

Ilmur Kristjánsdóttir leikkona er ein þeirra sem rita nafn sitt …
Ilmur Kristjánsdóttir leikkona er ein þeirra sem rita nafn sitt undir ályktun stjórnar Leikarafélags Íslands í Þjóðleikhúsinu sem kveðst styðja sín stéttarsystkini í Borgarleikhúsinu í launamálum þar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við viljum auðvitað bara styðja við bakið á okkar kollegum, við höfum líka lent á eftir í launaþróun þótt við séum í aðeins betri stöðu, við erum með aðeins hærri grunnlaun og hærri sýningarlaun,“ segir Ilmur Kristjánsdóttir leikkona sem sæti á í stjórn Leikarafélags Íslands í Þjóðleikhúsinu.

Sendi félagið frá sér ályktun á fimmtudaginn og lýsti þar fullum stuðningi sínum við kjarabaráttu leikara hjá Leikfélagi Reykjavíkur, en á laugardaginn fyrir rúmri viku, 1. febrúar, birti Morgunblaðið opið bréf þeirra Birnu Hafstein, formanns Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum, og Hrafnhildar Theodórsdóttur, framkvæmdastjóra sama félags.

Ræddu bréfritarar þar upplýsingar er félagi þeirra bárust frá Borgarleikhúsinu um laun allra starfsmanna hússins og telja þær Birna og Hrafnhildur sína félagsmenn bera verulega skarðan hlut frá borði í launum miðað við starfsfólk á skrifstofu Borgarleikhússins. Hefði félagið lengi falast eftir þessum upplýsingum gegn neitun, en þær svo skyndilega borist.

„Voru það mis­tök starfs­manns eða hrein­lega guðleg íhlut­un?“ spurðu bréf­rit­ar­ar og sögðu leynd­ar­hyggj­una skilj­an­lega í ljósi gagn­anna aðsendu. „Hjarta Borg­ar­leik­húss­ins slær á skrif­stof­unni – í það minnsta launa­lega,“ sagði því næst í bréfinu.

Í kjölfarið ræddi Birna við mbl.is í viðtali er lesa má handan hlekksins hér að ofan og ályktaði stjórn Leikarafélags Íslands í Þjóðleikhúsinu í kjölfarið, sem fyrr segir. Ályktunina má lesa neðan texta þessa viðtals, en þar segir auk annars að ljóst sé að leikarar hafi setið eftir í launaþróun undanfarin ár og endurspegli launakjör ekki þá miklu fagmennsku, ábyrgð og álag er störf þeirra krefjist.

Undir þetta tekur Ilmur heils hugar í samtali við mbl.is, enda ritar hún ásamt fleirum nafn sitt undir ályktunina.

„Þetta skilar sér ekki til okkar“

„Við höfum orðið svolítið eftir í launaþróun hefur maður séð og við erum kannski ekki best í kjarabaráttu, störfin eru ekki mörg og margir um bitana,“ segir Ilmur og dregur ekki fjöður yfir þá skoðun sína að nokkuð hafi skort á samstöðu leikarastéttarinnar.

„Við þurfum bara öll að fara í kjarabaráttu, ekki bara í leikhúsinu heldur líka í kvikmyndabransanum,“ segir leikkonan gamalreynda og útskýrir strauma og stefnur í kjörum leikara. Þeir séu vissulega með sín grunnlaun í leikhúsinu, en eigi undir högg að sækja hvað vinnuálag snertir þegar svokallaðar „gangsýningar“ fara á fjalirnar, en þar á hún við sýningar sem ganga mánuðum ef ekki árum saman. „Svona eins og margar barnasýningar og vinsælir söngleikir,“ útskýrir Ilmur.

„Við þurfum bara öll að fara í kjarabaráttu, ekki bara …
„Við þurfum bara öll að fara í kjarabaráttu, ekki bara í leikhúsinu heldur líka í kvikmyndabransanum,“ segir Ilmur. Hér má sjá tignarlega byggingu Þjóðleikhússins sem Guðjón húsameistari Samúelsson teiknað og var vígð 20. apríl 1950. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta skilar sér ekki til okkar og það hefur svolítið gleymst að þetta hverfist um okkar starf, við erum þau sem skipta mestu máli þarna og þess vegna finnst mér kominn tími á að launin okkar endurspegli þegar vel gengur. Þannig að það sé einhver hvati,“ heldur Ilmur áfram og leggur mat sitt ósykurhúðað á borð:

„Þú ert í raun í bestum málum ef þú ert að æfa lítið og sýna sýningar sem seljast ekki vel, þá ertu að fá ágætislaun fyrir litla vinnu og ert ekki í sýningum sem ganga lengi,“ segir leikarinn blákalt. Aðspurð kveður hún leikara á sínum föstu launum óháð fjölda sýninga sama verks, en sérstakt sýningarálag sé þó greitt, sem er rétt um 7.000 krónur á sýningu í tilfelli Borgarleikhússins.

Erfitt að hrópa á torgum

„Þú ert kannski að sýna margar sýningar í mánuði, allar helgar og öll kvöld og það sést voðalega lítið á launaseðlinum,“ segir hún, „við höfum aðallega náð að hífa okkur upp með bíóbransanum en á móti kemur að það er aðeins verið að herða að okkur í leikhúsinu með þau störf, því þau trufla verulega starfið þar þegar endalaust er verið að biðja um frí, svo maður þarf í raun að vera á öðrum hvorum staðnum.“

Hvernig er þessi launamunur í Þjóðleikhúsinu – á milli leikara og skrifstofu, er þér kunnugt um það?

„Við vitum svo sem ekkert um það og varðandi Borgarleikhúsið held ég að skrifstofufólkið þar sé ekkert á óeðlilega háum launum. Ég held að leikurunum hafi aðallega brugðið við hvað þeir eru á lélegum launum miðað við annað háskólamenntað fólk,“ svarar Ilmur.

Er leikarastarfið sem sagt enn þá byggt á köllun og hugsjón í dag?

„Já, það er það og enginn vill breyta því svo sem, en við viljum að sjálfsögðu vera metin að verðleikum eins og aðrir. Við sem erum að vinna í leikhúsunum og á einhvers konar samningum þar, við erum í bestu málunum þannig að það er líka svolítið erfitt að vera að hrópa á torgum og kvarta yfir launum þegar maður veit að sjötíu prósent kollega manns eru í endalausu styrkjaumhverfi og að berjast í bökkum í þremur öðrum vinnum, en ef við gerum það ekki hver á þá að gera það?“ svarar leikkonan.

Kraftur í ungu leikurunum

Aðspurð kveðst hún ekki geta ímyndað sér hvað komi út úr Borgarleikhúsumræðu síðustu vikunnar. „Það þarf náttúrulega að ganga frá samningum og hífa launin upp í eitthvað sem þykir eðlilegt, þau eru það ekki eins og er og nú eru farnar að heyrast háværar raddir, til dæmis varðandi okkar samninga sem eru búnir að vera lausir síðan í mars, að það þurfi að fara að gera skurk í þeim málum,“ segir hún.

En hvernig er nýliðunin í leikarastéttinni núna? Er fólk að fara í námið og er þetta eftirsótt eins og það hefur lengstum verið?

„Já, nýliðunin er mjög mikil, margir að koma inn í bransann og það er mikill kraftur í ungu leikurunum,“ svarar Ilmur og hin bjarta rödd leikkonunnar léttist öll við að snúa talinu að öðru en þungvinnum kjaramálunum. Hún kveður námið í Listaháskólanum nú hafa fært út kvíarnar og sviðslistadeild hafi auk leikarabrautar bætt við sviðshöfundabraut og dansbraut.

„Það er dálítið öflug grasrót að koma inn og hefur verið að því undanfarin ár, þótt þetta sé erfitt starfsumhverfi peningalega er þetta mjög skemmtilegt umhverfi og gefandi,“ segir hún.

Ertu bjartsýn þegar þú lítur til framtíðar íslenskrar leikarastéttar og leiklistar á Íslandi?

„Ég er mjög bjartsýn,“ svarar leikkonan hikstalaust og slær botninn í spjallið: „Það er mikil framtíð í sviðslistum og ég held að núna, með alla þessa gervigreind og allt þetta gervidót, þá þurfum við svo mikið að fá þetta. Þegar gervigreind er farin að geta framleitt fyrir okkur sjónvarpsefni finnum við alveg að okkur vantar eitthvað ekta og þú færð ekkert mikið meira ekta en leikhús. Þú færð nærveru við lifandi fólk sem er að segja þér sögu, fólk er saman og það er eitthvað að gerast í núinu. Það verður aukin eftirspurn á þessu sviði,“ segir Ilmur Kristjánsdóttir leikkona.

Hér má lesa ályktun félagsins:

Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert