Inga Sæland: Ekkert barn þurfi að líða skort

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, í …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, í ræðustóli Alþingis í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Ég er hér til að berjast gegn fátækt þannig að ekkert barn þurfi að líða skort vegna aðstæðna sem það ræður ekki við.“

Þetta sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ráðherra félags- og húsnæðismála, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.

Inga sagði nýja ríkisstjórn hafa skýra sýn og einbeittan vilja til að breyta Íslandi til betri vegar. Ekki með fögrum orðum heldur með raunverulegum aðgerðum sem munu bæta líf fólksins í landinu strax á þessu ári.

„Þess vegna er ég stolt að segja frá því að strax í mars munum við leggja fram frumvarp sem tryggir að aldursviðbót örorkulífeyris haldist ævilangt.

Þetta þýðir á mannamáli að öryrki mun ekki lengur missa mikilvægar tekjur við það eitt að ná 67 ára aldri eins og þeir hafa mátt búa við hingað til,“ sagði Inga.

Ígildi sætis við kjaraborðið

Þá sagði hún að lögfest yrði að örorku- og ellilífeyrir hækki í samræmi við launavísitölu, þó aldrei minna en verðlag.

Það væri grundvallarréttlætismál sem muni auka ráðstöfunartekjur hópanna til muna. Með þeirri ráðstöfun fái öryrkjar og aldraðir í fyrsta sinn ígildi þess að eiga sæti við kjaraborðið.

Ráðherrann sagði að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði lögfestur og að með lögfestingu hans yrði réttarvernd fatlaðs fólks efld og Ísland verði ekki lengur eftirbátur annarra landa þegar kemur að mannréttindum.

Tryggja þeim reisn

Inga kynnti þá í ræðu sinni frekari aðgerðir ríkisstjórnarinnar á næstu árum til að bæta grunnframfærslu tekjulágra lífeyrisþega umfram vísitöluþróun.

Sem dæmi nefndi hún að tæplega tvöfalda ætti almennt frítekjumark ellilífeyris og að ríkisstjórnin muni þá styðja og styrkja atvinnuþátttöku fatlaðra, taka upp sérstakt frítekjumark ellilífeyris vegna vaxtatekna og draga verulega úr skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna.

Skipaður verður sérstakur hagsmunafulltrúi eldra fólks sem mun kortleggja stöðu þeirra, félagslega bakgrunn og fjárhagslega afkomu.

„Við munum taka utan um fullorðna fólkið okkar og tryggja þeim þá reisn sem efri árin eiga að vera okkur öllum í okkar ríka landi.“

Auðmjúk og þakklát þjóðinni

Inga Sæland sagðist auðmjúk og þakklát fyrir það mikla traust sem þjóðin hefur sýnt henni og Flokki fólksins.

„Traust til að berjast fyrir þá sem eiga um sárt að binda, traust til að byggja réttlátara samfélag, traust á nýrri samhentri ríkisstjórn sem leggur nú af stað í þá fallegu vegferð að setja fólkið í fyrsta sæti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert