Meint morðvopn fannst í bíl Alfreðs

Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í ágúst í fyrra.
Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í ágúst í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Hamar fannst í bílnum sem Alfreðs Erlings Þórðarsonar, sem ákærður er fyrir að verða hjónum að bana í Neskaupstað í ágúst í fyrra, ók er hann var handtekinn á Snorrabraut í Reykjavík.

Áður en lögreglumenn tæknideildar lögreglu vissu af hamrinum í bíl hins grunaða höfðu þeir getið sér til um að morðvopnið væri hamar eða álíka verkfæri. 

Þetta kom fram í máli lögreglumanns, sem rannsakaði vettvanginn að Strandgötu í Neskaupstað, fyrir héraðsdómi í dag. Aðalmeðferð í máli Alfreðs Erlings hófst í dag. 

Í máli lögreglumannsins kom fram að fjöldi skófara hefði verið á vettvangi, enda fóru bæði viðbragðsaðilar og menn nákomnir hinum látnu og ákærða á vettvanginn áður en honum var lokað.

Ein skóför skáru sig úr

Sagði hann þó að ein skóför hefðu skorið sig úr, þau sem mynduðust úr fersku blóði. Voru þau skóför borin saman við skó allra þeirra er komu á vettvang, sem og við skó Alfreðs.

Eru niðurstöður rannsóknarinnar þær að skór Alfreðs hafi að öllum líkindum myndað umrædd för.

Lögreglumaðurinn bar enn fremur vitni um það að áverkar á hinum látnu, eins og þeir birtust tæknideild lögreglunnar á vettvangi, hefðu bent til þess að hamar eða álíka áhald hefði verið notað til að veita hjónunum banamein sín. Einnig voru för í eldhússtól sem gáfu til kynna að hamar eða álíka áhaldi hefði verið beitt. 

Annars var lítið af verksummerkjum á vettvangi sem benti til þess hvert morðvopnið hafi verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert