Eyþór Stefánsson, formaður heimastjórnar Borgarfjarðar eystra, segir algjörlega óþolandi og óviðunandi að fjallvegurinn Vatnsskarð eystra sé aðeins þjónustaður sex daga vikunnar en ekki sjö á veturna.
Íbúar á svæðinu nota veginn daglega til að sækja þjónustu og segir Eyþór ástandið ógna öryggi íbúa á svæðinu auk þess sem það hafi neikvæð áhrif á fyrirtækjarekstur á Borgarfirði.
Íbúar Borgarfjarðar reiða sig á Vatnsskarð til að sækja þjónustu til Egilsstaða en vetrarþjónustu er ekki sinnt á veginum á laugardögum. Eyþór segir að þetta hafi talsverð áhrif á líf íbúa á Borgarfirði og ógni ekki síst öryggi þeirra komi t.d. til þess að sækja þurfi bráðalæknisþjónustu þegar vegurinn er lokaður.
„Þetta er ekkert síður slæmt fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á staðnum sem eru að reyna að rembast við að halda úti heilsársferðaþjónustu á veturna og gera það með því að halda einhverja viðburði. Það er þá alveg háð því að vegurinn sé opinn á laugardögum,“ segir Eyþór og bendir á að íbúafjöldi á Borgarfirði fylli ekki heilan viðburð á vegum ferðaþjónustufyrirtækjanna.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag