Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sakar ríkisstjórnina um and-landsbyggðarstefnu. Hún birtist t.d. í hugmyndum um að stórhækka skattlagningu á sjávarútveginn sem muni ekki síst bitna á minni og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum í sjávarútvegi.
Þá spurði hann hver væri eiginlega stefna ríkisstjórnarinnar varðandi íslenskan landbúnað.
„Samkvæmt þingmálaskrá á að taka af sjálfsagðan rétt bænda til samstarfs í eigin fyrirtækjum; rétt sem allir bændur í allri Evrópu hafa. Taka fram fyrir hendur æðsta dómstóls landsins sem hefur málið til umfjöllunar,“ sagði Sigurður Ingi á Alþingi í kvöld í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra.
Sigurður Ingi spurði enn fremur hver stefna ríkisstjórnarinnar væri í málefnum ferðaþjónustunnar.
„Hringl í skattheimtuhugmyndum. Það hjálpar ekki samkeppnishæfni, eða aukinni verðmætasköpun eða uppbyggingu ferðaþjónustu um allt land allt árið,“ sagði hann.
Sigurður Ingi sagði jafnframt að það væri eftirtektarvert að forsætisráðherra hefði ekki fjallað í ræðu sinni um þá vegferð um þjóðaratkvæðagreiðslu að ríkisstjórnin ætlaði að sækja um aðild að ESB. „Eins og Samfylkingu og Viðreisn dreymir um og hafa nú fengið stuðning úr óvæntri átt frá Flokki fólksins sem hefur kúvent stefnu sinni í þessu eins og mörgu.“
Sigurður Ingi gerði menntmál einnig að umfjöllunarefni og sagði að ríkisstjórnin hefði ekki vikið einu orði að stöðu kennara eða þeirri alvarlegu stöðu að þúsundir barna hefðu setið heima. Að óbreyttu stefndi í allsherjarverkfall.
Sigurður Ingi vék einnig orðum sínum að því að menn hefðu fagnað því í liðinni viku þegar Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um hálft prósent. Þetta væri í takti við áætlanir síðustu ríkisstjórnar og byggði á efnahagsstefnu síðustu ára.
Þá sagði hann að það væri grafalvarlegt þegar allra verða væri von að búið væri að loka einni af flugbrautum Reykjavíkurflugvallar sem væri mikilvægasti hlekkurinn í sjúkraflugi. „Við þessa stöðu getur enginn sætt sig. Við í Framsókn munum berjast fyrir að rekstraröryggi vallarins verði tryggt.“
„Við í Framsókn erum til í áframhaldandi uppbyggingu íslensks samfélags. Við erum til í samstarf og samvinnu um öll slík mál en við munum svo sannarlega veita ríkisstjórninni aðhald þegar það á við,“ sagði Sigurður Ingi í lok ræðu sinnar.