Fyrrverandi skólastjóri grunnskólans á Þórshöfn hefur hlotið sex mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn til tveggja ára, fyrir umboðssvik.
Millifærði hún í 74 færslum á eigin bankareikning 8.564.611 krónur á tímabilinu september 2017 til mars 2020 af bankareikningi Grunnskólans á Þórshöfn og félagsmiðstöðvarinnar Svartholsins.
Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku.
Skólastjórinn Ásdís Hrönn Viðarsdóttir taldist ekki hafa gerst sek um fjárdrátt heldur um að misnota aðstöðu sína sem opinber starfsmaður með því að nota fjármuni sveitarfélagsins heimildarlaust í eigin þágu.
Fjármunir sem hún millifærði á eigin reikning tilheyrðu annars vegar nemendaskiptaverkefnum á vegum skólans og hins vegar starfsemi félagsmiðstöðvarinnar en fram kemur í rökstuðningi með niðurstöðu dómsins að skólastjórinn fyrrverandi hafi notað alla vega hluta af fjármununum í fyrstu í eigin þágu og þá gjarnan á veðmála- og leikjasíðum á internetinu.
Í einhverjum tilvikum leið talsverður tími frá því hún millifærði á eigin bankareikning þar til hún greiddi kostnað sem tilheyrði henni ekki.
Niðurstaða dómsins er að ekki verði annað séð en að á endanum hafi Ásdís ráðstafað stærstum hluta fjármunanna í verkefni á vegum grunnskólans og að ekki sé hægt að útiloka að hún hafi ráðstafað alla vega hluta fjármunanna sem hún millifærði af bankareikningi félagsmiðstöðvarinnar í þágu skjólstæðinga hennar.
Viðurkennt sé raunar af hálfu sveitarfélagsins að hún hafi ráðstafað stærstum hluta þeirrar fjárhæðar sem hún millifærði af reikningi grunnskólans til greiðslu kostnaðar vegna verkefna á vegum skólans.