Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hafi komið á óvart að mörgu leyti.
Hann segir að um helmingur þeirra mála sem séu í skránni séu annaðhvort endurflutt eða hafi verið í undirbúningi inni í ráðuneytum undir forystu fyrrverandi ríkisstjórnar.
„Þannig að, virðulegur forseti, staðan var mögulega ekki eins slæm og látið var í veðri vaka hér á Alþingi, eða að minnsta kosti ber ný þingmálaská þess ekki merki,“ sagði Stefán Vagn á Alþingi í kvöld í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra.
Hann benti jafnframt á að við yfirlestur á þingmálaskránni þá væri ljóst að það vantaði upp á þau loforð sem höfðu verið gefin fyrir kosningar, sum ófrávíkjanleg, væru sýnileg.
„Mögulega eiga þau eftir að líta dagsins ljós eða voru látin niður falla þar sem enginn flokkur fékk yfir fimmtíu prósent í kosningunum. En þá er það víst þannig að þá gilda loforðin ekki lengur og breytast í markmið eða stefnur sem ekki þarf að standa við.“
Stefán Vagn sagði mikilvæg verkefni í samgöngumálum bíða. Lítið sjáist hins vegar á spil ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.
„Í mínu kjördæmi, Norðvestur, náðist að setja inn framkvæmdir á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit í fjárlög fyrir árið 2025 og mjög mikilvægt að þau verkefni haldi áfram og klárist eins og lagt var upp með. Loforð um tvenn jarðgöng á hverjum tíma eins og hæstvirtur innviðaráðherra lofaði fyrir kosningar sjást hins vegar ekki og ný samgönguáætlun mun ekki líta dagsins ljós fyrr en mögulega í haust,“ sagði Stefán Vagn.
Þá benti hann á að í upphafi stjórnarmyndunarinnar hefðu oddvitar ríkisstjórnarinnar komið fram og sagt að nýjar upplýsingar um stöðu ríkisjóðs til hins verra hefðu gert það að verkum að ekki væri hægt að fara í þau mál sem lofað hafði verið fyrir kosningar.
Stefán Vagn sagði að umræddar upplýsingar hefðu hins vegar legið fyrir við gerð fjárlaga fyrir árið 2025 og fulltrúar allra flokka í fjárlaganefnd hefðu verið fullmeðvitaðir um breytta stöðu. Annað væri því ódýr eftiráskýring sem standist enga skoðun.