Í Spursmálum síðastliðinn föstudag var nýr dagskrárliður kynntur til sögunnar. Þar verður fylgst með atferli stjórnmálafólks og flokka á samfélagsmiðlum og því gert skil með reglubundnum hætti í þættinum.
Það kenndi ýmissa grasa á samfélagsmiðlum stjórnmálaaflanna í síðustu viku. Ljóst var að nóg var um að vera hjá helstu leikendum íslensks stjórnmálasviðs og áhugavert að sjá hvað hver og einn þeirra fékkst við þá dagana.
Sem dæmi skein eftirvæntingin úr andliti Kristrúnar Frostadóttir forsætisráðherra þegar hún deildi færslu á Facebook þar sem hún hélt á nýrri þingmálaskrá ríkisstjórnarflokkanna með Stjórnarráðið í bakgrunni.
Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, deildi færslu á Instagram þar sem hún var stödd í Genf í Sviss á vegum Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA og EES og ræddi alþjóðaviðskipti á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þar hefur ekki verið töluð vitleysan.
Þá lét Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir nýr dómsmálaráðherra verkin tala og deildi einu af sínum fyrstu verkum í embætti með fylgjendum sínum á Instagram en það kveður á um að hækka lágmarkssekt fyrir vopnaburð á almannafæri um drjúga upphæð. Úr 10.000 krónum upp í 150.000 krónur hvorki meira né minna.
Alþingi kom svo loks saman á ný þriðjudaginn 4. febrúar og skutu mörg ný andlit upp kollinum við þingsetninguna. Mörg ærin verkefni bíða nú eftir afgreiðslu nýs þings og miðað við færslur þingmanna á samfélagsmiðlum í síðustu viku virðast allir meira en tilbúnir í slaginn líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.
Ný vika fer af stað með hvelli: slit á borgarstjórnarsamstarfi, ólögmæt kennaraverkföll og lengi mætti upp telja. Það verður því forvitnilegt að fylgjast með færslum á samfélagsmiðlum helsta áhrifafólks landsins í vikunni sem greint verður frá næstkomandi föstudag í Spursmálum.
Nýjasti þáttur Spursmála er aðgengilegur í heild sinni hér að neðan, á Spotify og YouTube: