Stjórnmálafólk fer hamförum á samfélagsmiðlum

Í Spursmálum síðastliðinn föstudag var nýr dagskrárliður kynntur til sögunnar. Þar verður fylgst með atferli stjórnmálafólks og flokka á samfélagsmiðlum og því gert skil með reglubundnum hætti í þættinum.

Það kenndi ýmissa grasa á samfélagsmiðlum stjórnmálaaflanna í síðustu viku. Ljóst var að nóg var um að vera hjá helstu leikendum íslensks stjórnmálasviðs og áhugavert að sjá hvað hver og einn þeirra fékkst við þá dagana. 

Margt drífur á daga

Sem dæmi skein eftirvæntingin úr andliti Kristrúnar Frostadóttir forsætisráðherra þegar hún deildi færslu á Facebook þar sem hún hélt á nýrri þingmálaskrá ríkisstjórnarflokkanna með Stjórnarráðið í bakgrunni. 

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, deildi færslu á Instagram þar sem hún var stödd í Genf í Sviss á vegum Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA og EES og ræddi alþjóðaviðskipti á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þar hefur ekki verið töluð vitleysan. 

Þá lét Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir nýr dómsmálaráðherra verkin tala og deildi einu af sínum fyrstu verkum í embætti með fylgjendum sínum á Instagram en það kveður á um að hækka lágmarkssekt fyrir vopnaburð á almannafæri um drjúga upphæð. Úr 10.000 krónum upp í 150.000 krónur hvorki meira né minna.

Alþingi kom svo loks saman á ný þriðjudaginn 4. febrúar og skutu mörg ný andlit upp kollinum við þingsetninguna. Mörg ærin verkefni bíða nú eftir afgreiðslu nýs þings og miðað við færslur þingmanna á samfélagsmiðlum í síðustu viku virðast allir meira en tilbúnir í slaginn líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. 

View this post on Instagram

A post shared by Jón Gnarr (@jongnarr)

Ný vika fer af stað með hvelli: slit á borgarstjórnarsamstarfi, ólögmæt kennaraverkföll og lengi mætti upp telja. Það verður því forvitnilegt að fylgjast með færslum á samfélagsmiðlum helsta áhrifafólks landsins í vikunni sem greint verður frá næstkomandi föstudag í Spursmálum.

Nýjasti þáttur Spursmála er aðgengilegur í heild sinni hér að neðan, á Spotify og YouTube:

Margt drífur á daga stjórnmálafólks eins og sjá má.
Margt drífur á daga stjórnmálafólks eins og sjá má. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert