„Eftirlitshlutverk Alþingis er mikilvægt og það verður af nægu að taka hjá nefndinni. Það er augljóst að við þurfum að stuðla að því að almenningur hafi trú og traust á þinginu og við komumst ekki hjá því að skoða mál sem varða fjármál, styrki og upplýsingagjöf stjórnmálaflokkanna.“
Þetta segir Vilhjálmur Árnason, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið og vísar þar til frétta undanfarinna daga af fjárstyrkjum til stjórnmálaflokka.
Hann segir einnig að með fyrstu málum sem nefndin muni taka til skoðunar sé framkvæmd síðustu alþingiskosninga, enda sé það hlutverk nefndarinnar. Fyrsti fundur nýkjörinnar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar verður á miðvikudaginn.
„Nefndin þarf að koma sér saman um hvernig við tökum á þessum styrkjamálum og það eru fleiri mál þarna undir, en þetta hefur verið til umfjöllunar undanfarið og augljóst er að nefndin þarf að fjalla um það,“ segir Vilhjálmur.
Hann bendir á að hlutverk nefndarinnar felist fyrst og fremst í eftirliti, að safna upplýsingum og upplýsa um stöðu mála og síðan sé það hlutverk viðkomandi stjórnvalds að bregðast við niðurstöðu nefndarinnar í einstökum málum.
„Við fjöllum um mál og upplýsum, en nefndin þarf að koma sér saman um hvernig hún ætlar að haga sínu eftirliti,“ segir hann.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag