Talaði um Guð, djöfulinn og Jesú Krist við handtöku

Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í fyrra.
Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Alfreð Erling Þórðarson, 45 ára karlmaður sem ákærður er fyrir að verða hjónum að bana í Neskaupstað 21. ágúst, var að eigin sögn á leið niður að Hallgrímskirkju til að kveikja á krossi þegar hann var handtekinn. 

Lögreglumaður sem sat með honum í lögreglubíl rétt eftir að hann var handtekinn segir Alfreð hafa verið mjög rólegan og samvinnuþýðan. 

„Ég hef sjaldan átt svona samtal við nokkurra manneskju,“ sagði lögreglumaðurinn sem gaf skýrslu í aðalmeðferð málsins í dag. 

„Hann talaði bara um Guð og djöfulinn og Jesú Krist, hann sagði að hann væri að vinna í gegnum þá. Þetta var ekki venjulegt samtal,“ sagði lögreglumaðurinn. 

Að vinna verk fyrir Guð eða djöfulinn

Spurður að því hvað Alfreð hefði sagt, þegar hann var spurður að því í hvaða erindagjörðum hann væri þegar hann var handtekinn sagði lögreglumaðurinn:

„Hann sagðist bara vera á leiðinni niður að Hallgrímskirkju að fara vinna eitthvað verk fyrir Guð eða djöfullinn. Ætlaði að kveikja á kross fyrir framan Hallgrímskirkju,“ sagði lögreglumaðurinn. 

Alfreð er ákærður fyrir að hafa notað hamar til að veitast að hjónunum og slá þau ítrekað í höfuðið. Hann hefur lengi glímt við geðrænan vanda og hafði verið úrskurðaður í 12 vikna nauðungarvistun á geðdeild þegar morðin voru framin. Alfreð sjálfur hefur kosið að skýra ekki nánar frá málsatvikum, en hann mætti til aðalmeðferðar í morgun og gaf stutta skýrslu. Þar gerði hann grein fyrir því að hann vildi ekki svara frekari spurningum eða skýra málavexti. Þá vildi hann ekki tjá sig um geðmat.

Riðlaði þetta talsvert dagskrá aðalmeðferðarinnar, en saksóknari gerði ráð fyrir að geta tekið skýrslu af ákærða og meðal annars bera undir hann myndskeið.

Sérsveitarmaður gaf skýrslu

Sérsveitarmaður sem kom á vettvang að Strandgötu í Neskaupstað 22. ágúst í fyrra segir aðkomuna vægast sagt hafa verið ófagra. Hann segir blóðslettur hafa verið upp um veggi. 

Sérsveitarmaðurinn gaf skýrslu fyrir dómi í dag.

„Við förum inn um aðaldyrnar og þá sér maður strax þar að það eru blóðdropar og slettur þar, ekki mikið en aðeins,“ sagði sérsveitarmaðurinn. 

Sérsveitin fékk útkall skömmu eftir að viðbragðsaðilar höfðu komið á staðinn, en sjúkraflutningamenn sem fyrstir komu á vettvang af viðbragðsaðilum töldu að skotvopni hefði verið beitt.

Sérsveitarmaðurinn sagði fyrstu upplýsingar um málið hafa verið óskýrar en að frekari upplýsingar hafi borist þegar þeir voru á leiðinni á staðinn. Sérsveitin var kölluð til frá Akureyri og kom á vettvang löngu eftir að Alfreð var handtekinn í Reykjavík 22. ágúst. 

Einnig hefur lögreglukona sem fyrst kom á vettvang af lögreglu gefið skýrslu. Hún fór inn fyrst af lögreglu og taldi líkt og sjúkraflutningamenn að skotvopni kynni að hafa verið beitt. 

Arnþrúður Þórarinsdóttir er saksóknari í málinu.
Arnþrúður Þórarinsdóttir er saksóknari í málinu. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert