Tugmilljóna tjón eftir ofsaveðrið

Skemmdir urðu á um tíu húsum í ofsaveðrinu sem gekk …
Skemmdir urðu á um tíu húsum í ofsaveðrinu sem gekk yfir Stöðvarfjörð á fimmtudaginn. Ljósmynd/Bjarni Stefán Vilhjálmsson

Starfsmenn Fjarðabyggðar hafa ásamt verktökum og íbúum staðið í ströngu í hreinsunarstarfi og viðgerðum í Stöðvarfirði eftir ofsaveðrið sem gekk yfir bæinn síðastliðinn fimmtudag.

Bjarni Stefán Vilhjálmsson, verkstjóri í þjónustumiðstöð Stöðvarfjarðar, segir að vinnan gangi ágætlega en þaktjón varð á mörgum húsum í bænum og er búið að setja plast yfir þök þeirra húsa og festa niður lausar þakplötur.

Þakplötur losnuðu af mörgum húsum í bænum.
Þakplötur losnuðu af mörgum húsum í bænum. Ljósmynd/Bjarni Stefán Vilhjálmsson

„Ég held að það sé búið að loka öllum þökum og við höfum náð að vinna úr stærstu hlutunum en vinna við að tína upp rusl mun verða í gangi fram á vor,“ segir Bjarni við mbl.is en um tíu hús urðu fyrir skemmdum í ofsaveðrinu. Rúður brotnuðu í mörgum húsum og þá urðu skemmdir á nokkrum bílum, bæði lakkskemmdir og rúðutjón, og jafnframt eru innréttingar í sumum húsum illa farnar eftir vatnstjón.

Bjarni segir að tjónið hlaupi á tugmilljónum króna ef ekki hundrað.

„Það er sjálfsagt brjálað að gera hjá tryggingarfélögunum þessa dagana út um allt land. Ég veit til þess að það var eitt tryggingarfélag með mann hérna fyrir helgina,“ segir hann.

Heilu trén fuku upp með rót­um í ofsaveðrinu.
Heilu trén fuku upp með rót­um í ofsaveðrinu. Ljósmynd/Bjarni Stefán Vilhjálmsson

Bjarni segir að tekist hafi að forða enn frekara tjóni eins og að binda upp trillur sem losnuðu en vindhraðinn fór upp í allt að 57 metra á sekúndu í Stöðvarfirði.

„Ég hef verið búsettur í Stöðvarfirði frá árinu 2005 og ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins óveðri og ég hef ekki hitt neinn sem man eftir svona veðri. Þetta ofsaveður skall á klukkan átta um kvöldið og það stóð sleitulaust yfir í tæpan sólarhring. Svo hjálpaði ekki vatnsveðrið þegar áin setti allt í rugl og sópaði ofan af vatnslögnum. Nú er bara að krossa fingur að þær gefi sig ekki því þá missir útbærinn vatnið,“ segir hann.

Þakplöturnar rifnuðu hreinlega í sundur.
Þakplöturnar rifnuðu hreinlega í sundur. Ljósmynd/Bjarni Stefán Vilhjálmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert