„Verðum bara að sjá hvað kemur út úr deginum“

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekkert formlegt í gangi,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista í Reykjavík, um stjórnarmyndunarviðræður nýrrar borgarstjórnar.

Meirihlutasamstarf borgarstjórnarinnar sprakk á föstudag og hafa borgarfulltrúar flokkanna varið helginni í samtöl hver við annan um stjórnarsamstarf.

Einn möguleiki á borðinu er fimm flokka vinstristjórn Pírata, Samfylkingar, Flokks fólksins, Vinstri grænna og Sósíalista.

Sjá hvað kemur út úr deginum

„Ég geri bara ráð fyrir því að heyra í fólki í dag og tala saman og sjá hvað kemur út úr því. En það er ekkert annað sem ég get greint frá,“ segir Sanna við mbl.is.

Aðspurð um hvort fyrst og fremst sé verið að horfa til þeirra flokka sem gætu, með sósíalistum, myndað stjórn á vinstri vængnum segir Sanna það ekki vera komið á hreint.

„En ég og Líf [Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík] erum í góðum samskiptum eins og hefur komið fram þannig að já, við verðum bara að sjá hvað kemur út úr deginum.“

Þá segir oddvitinn ekki tímabært að segja til um hvort von sé á stærri tíðundum fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert