Samningar í kjaradeilu kennara og sveitarfélaga stranda á því að kennarar vilja geta sagt upp samningum á tímabilinu ef þeim hugnast ekki útkoman úr þeirri virðismatsvegferð sem lagt er upp með, en halda engu að síður þeim launahækkunum sem eru á borðinu.
Sveitarfélögin vilja hins vegar meiri skuldbindingu í ljósi þess að verið sé að bjóða umtalsverðar launahækkanir. Þau geta því ekki sætt sig við að samningurinn sé uppsegjanlegur á tímabilinu.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að reynt hafi verið að gera kennurum grein fyrir því að engin áhætta sé fólgin í virðismatinu. Allt hafi verið reynt til að koma til móts við kennara, en erfitt sé að koma launahækkunum til fólks sem vilji ekki þiggja þær.
Fundað var í kjaradeilunni í Karphúsinu í gær en þá átti að fara yfir hugmyndir sem ríkissáttasemjari lagði til fyrir helgi sem hann taldi að gætu liðkað fyrir lausn deilunnar. Fundinum lauk hins vegar án nokkurs árangurs og voru allir sammála um að ekki væri tilefni til að boða til nýs fundar.
Inga segir stöðuna mjög alvarlega og að fundurinn í gær hafi ekki verið góður.
„Þau voru ekki stemmd fyrir samtali í gær, það var augljóst,“ segir Inga og vísar þar til kennara.
Dómur Félagsdóms á sunnudag, þar sem verkföll kennara í þrettán leikskólum og sjö grunnskólum, voru dæmd ólögmæt, hafi líka haft sitt að segja.
Hvað gerist næst, verður einfaldlega að koma í ljós, að sögn Ingu.
„Við erum auðvitað alltaf í sambandi við sáttasemjara og ef hann telur tilefni til að boða til fundar þá gerir hann það. Við erum alltaf tilbúin í samtal.“
Inga hefur áður sagt að sveitarfélögin hafi teygt sig eins langt og þau geta til að koma til móts við kennara hvað launahækkanir varðar, ásamt öðru.
Það er ekkert sem þið sjáið að þið getið boðið meira eða betra, beygt eða sveigt?
„Nei, það vantar algjörlega samningsvilja þeirra megin til að mæta okkur.“
Hvað þarf þá að gerast til að hægt sé að ná kjarasamningi?
„Það er nú það, við erum búin að teygja okkur eins langt og við mögulega getum. Við höfum boðið þeim gríðarlegar launahækkanir sem þau hafna. Það er fátt eftir.“
Á hvaða forsendum eru kennarar að hafna þessum launahækkunum?
„Þau vilja geta sagt upp samningi á miðju tímabili. Við erum ekki tilbúin í það.“
Vísar Inga til virðismats á störfum kennara sem lagt var til í innanhússtillögu ríkissáttasemjara í byrjun mánaðarins, að notast yrði við til að útkljá deiluna. Forsætisráðherra hefur sagt að ríkisstjórnin standi að fullu með þeirri tillögu, enda sé virðismatið lykilatriði ef hækka eigi laun kennara umfram aðrar stéttir.
Bæði ríki og sveitarfélög samþykktu innanhússtillöguna en ekki kennarar. Tillagan hefði jafngilt kjarasamningi hefði hún verið samþykkt.
Fram hefur komið að kennarar hafi hafnað 20 prósenta launahækkunum sem stóðu þeim til boða á samningstímabilinu, en til samanburðar má benda á að þær launahækkanir sem samið var um á almennum vinnumarkaði í upphafi árs árið 2024 nema ríflega 14 prósentum á samningstímabilinu.
„Það er þessi virðismatsvegferð, ef þeim finnst þau ekki fá nóg út úr henni þá vilja þau geta sagt upp samningum en halda engu að síður innáborgununum, sem eru gríðarlega miklar. Þannig við getum ekki sætt okkur við að þau hlaupi í burt með það,“ segir Inga, en með innáborgunum vísar hún til þeirra launahækkana sem boðnar hafa verið.
„Við erum búin að bjóða þeim svo miklar innáborganir á það að við viljum fá einhverja skuldbindingu á móti. Það er í rauninni það sem stendur út af. Þetta eru allt launahækkanir sem þau halda, sem innáborgun, svo þegar matið liggur fyrir þá fá þau allt sem kemur út úr því, mismuninn,“ útskýrir hún.
Inga segir að virðismatið muni alltaf koma vel út fyrir kennara, og reynt hafi verið að sýna þeim fram á það.
„Þau eru ekki að taka neina áhættu þar og eru að fara að fá virkilega vel út úr því, en það er bara ekkert traust, því miður. Við verðum líka að geta treyst því að þau standi við það sem við erum að fjárfesta í.“
Eins og ítrekað hefur komið fram vilja kennarar að staðið verði við samkomulag frá árinu 2016 um jöfnun launa á milli markaða. Gera kennarar kröfu um að fá sambærileg laun og aðrir háskólamenntaðir sérfræðingar á almenna markaðnum.
Inga segir að unnið hafi verið með kennurum árum saman að því að reyna að leysa þetta mál. Stóra vandamálið sé að ekkert traust ríki á milli aðila.
„Við þurfum að koma til þeirra þessum hækkunum og þau eru að gera okkur það ómögulegt. Það er fullur vilji til að hækka laun kennara vel og laga það sem þarf að laga, en það er ekki vilji til að taka á móti því.“
Þannig eins og staðan er núna þá þyrfti eitthvað að koma frá kennurum til móts við það sem þið eruð að bjóða?
„Já, það vantar samningsvilja.“
Búast má við því að kennarar fari í frekari verkfallsaðgerðir og formaður kennarasambandsins hefur ekki útilokað að gripið verði til allsherjarverkfalla. Kennarar gætu líka notað þá aðferð að fara í verkfallsaðgerðir í einu sveitarfélagi í einu, og þá uppfyllt þau skilyrði að verkföll nái til allra sem starfa hjá sama vinnuveitanda.
Inga segir nauðsynlegt að kennarar fari eftir lögum í sínum aðgerðum og að það hafi komið í ljós með dómi Félagsdóms á sunnudag að fram að þessu hafi það ekki verið gert.
„Við virðum þeirra aðgerðir, en þau verða að gera þetta rétt.“
Aðspurð hvernig það horfi við sveitarfélögunum grípi kennarar til allsherjarverkfalla, segir Inga:
„Það er bara mjög alvarleg staða, sérstaklega þegar það er verið að bjóða þeim gríðarlega góðan samning, þá er þetta mjög undarleg staða og hún er auðvitað grafalvarleg fyrir þjóðfélagið.