Alfreð ósakhæfur og hættulegur

Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í ágúst í fyrra.
Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í ágúst í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Geðlæknir sem gerði mat á Alfreð Erling Þórðarsyni, sem ákærður er fyrir að hafa orðið hjónum að bana í Neskaupstað í ágúst í fyrra, telur Alfreð ekki sakhæfan. Hann segir Alfreð vera hættulegan og þurfa margra ára meðferð á réttargeðdeild.

Þetta kom fram í máli Kristins Tómassonar geðlæknis við aðalmeðferð í máli Alfreðs í dag.

Kristinn hitti Alfreð þegar hann sætti gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði. Var það mat Kristins eftir stutt spjall að þar ætti Alfreð ekki heima, hann þyrfti að vera á sjúkradeild.

„Það blasti við mér eftir skamma stund að hann þyrfti að vera á réttargeðdeild. Þó að hann hafi verið góður þarna og prúður við fangaverði þá bað ég gangaverði að gæta sín sérstaklega á honum. Hann gæti verið óútreiknanlegur vegna veikinda sinna og ástands,“ sagði Kristinn fyrir dómi í dag.

Hann sagði það mikilvægt fyrir öryggi fangavarða og öryggi Alfreðs að tryggja að hann yrði vistaður á réttargeðdeild.

Mjög truflandi hugsanir

Spurður hvernig hann hafi komist að þessari niðurstöðu sagði Kristinn að Alfreð væri fastur í ranghugmyndakerfinu og að hann lýsti óbilgjörnum, truflandi hugsunum. Sagði hann Alfreð lýsa því hvernig fólk væri að deyja. Hann sagði allar lýsingar Alfreðs á ranghugmyndaheimi sínum mjög truflandi.

Alfreð þyrfti á mjög sérhæfðri meðferð og umönnun að halda. Hann gæti stofnað sér og öðrum í hættu.

„Ég upplifði að hann væri hættulegur. Þess vegna taldi ég það vera forgang að hann færi inn á réttargeðdeild til að tryggja öryggi hans, fangavarða og annarra,“ sagði Kristinn.

Kristinn hitti Alfreð aftur þegar hann var kominn inn á réttargeðdeildina og segir hann hafa verið mun samvinnuþýðari þegar inn á deild var komið.

Gat lýst aðdraganda og eftirmálum

Hann segir Alfreð vel gefinn og greindan. Almennt væri mjög skemmtilegt að ræða við hann, þótt gríðarlega mikil hugsanavilla og ranghugmyndir væru til staðar.

Kristinn ræddi við hann um aðdraganda þess að hann kom á heimili þeirra Björgvins Ólafs Sveinssonar og Rósu G. Benediktsdóttur í Neskaupstað aðkvöldið 21. ágúst. Hann ræddi líka við hann um atburðarásina eftir að Alfreð yfirgaf heimili þeirra. Hins vegar vildi Alfreð ekki ræða um hvað átti sér stað á heimilinu og sagðist Kristinn ekki geta áttað sig á hvaða raunverulegi verknaður fór fram þar innandyra. Alfreð kannist við að hafa orðið þeim að aldurtila.

„Það er mjög skrítið að hann geti ekki lýst þessu sem gerðist,“ sagði Kristinn.

Þá skal það tekið fram að Alfreð lýsti ákveðinni atburðarás sem á að hafa átt sér stað inni á heimilinu. Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari ítrekaði þó að sú atburðarás, og Kristinn var sammála, kæmi ekki heim og saman við önnur gögn í málinu.

Björgvin og Rósa fundust látin í blóði sínu á baðherbergisgólfinu. Er ljóst að þeim var ráðinn bani og er líklegt að hamar hafi verið notaður í verkið. Hamar fannst í bíl þeirra hjóna, sem Alfreð var handtekinn á í Reykjavík 22. ágúst.

Heltekinn af mikilvægi þess að kveikja í krossinum

Kristinn sagði Alfreð vel geta lýst því að hann hafi tekið bíl þeirra hjóna og í hvaða erindagjörðum hann var er hann hélt til Reykjavíkur. Hann var á leið að Hallgrímskirkju til að kveikja í krossi fyrir utan kirkjuna. Segir Kristinn hann algerlega hafa verið heltekinn af mikilvægi þess að kveikja í krossinum.

Hann segir Alfreð hafa sagt heilmikið og notað fullt af orðum en ekki getað gefið nákvæma verklýsingu eða komið með skynsamlega tillögu að því sem gæti hafa gerst.

Kristinn telur að Alfreð hafi verið alvarlega veikur í að minnsta kosti sex ár. Hann sé alvarlega veikur af geðrofssjúkdómi. Það sé mjög skýrt í hans huga að Alfreð sé alvarlega veikur.

Veit ekki að hann er veikur

Þá sagði hann Alfreð engan veginn átta sig á því að hann sé veikur og telur hann alfarið óbæran um að stjórna sínum gjörðum. Sagði hann Alfreð alls ekki líta á sig sem sjúkling í nokkrum skilningi og ekki telja sig vera veikan.

Ljóst sé að veikindin séu alvarleg og langvinn því ranghugmyndaheimurinn sé mjög inngróinn.

Hann sagði hann ekki vinnandi veg að reyna að koma Alfreð í skilning um að hugarheimur hans sé ranghugmyndaheimur. Kristinn hafi reynt að koma honum í skilning um að hugmyndir hans séu ekki eðlilegar eða réttar, en engu tauti væri fyrir hann komið.

„Það var ekki smuga um að koma honum í skilning um að þetta væri í besta falli sérkennilegt eða ekki eðlilegt,“ sagði Kristinn.

Kristinn segir Alfreð alltaf hafa verið mjög rólegan þegar hann lýsti því sem hann gerði og sá. Það sé heldur óvanalegt.

Telur að hann muni hverfa

Þá ræddi Kristinn við hann um afleiðingar af því ef það verður sannað á hann að hann hafi orðið hjónunum að bana. Alfreð gaf skrítin svör við því að sögn Kristins.

„Hann svaraði því til að ef hann verður ekki látinn hverfa úr fangaklefanum verður hann sýknaður eða dæmdur,“ sagði Kristinn. Hann bætti því við að Alfreð hafi verið tíðrætt um að hann muni hverfa, bara eins og dögg fyrir sólu.

Að mati Kristins tengist þessi trú hans einhverjum ranghugmyndaheimi. Þá var honum einnig tíðrætt um að það myndi vekja heimsathygli þegar hann væri látinn.

Verjandi Alfreðs, Unnsteinn Örn Elvarsson, spurði Kristin frekar út í þessar hugmyndir hans því hann hafi ítrekað tjáð sér að hann muni hverfa.

„Það er mjög skýrt í hans huga að hann muni hverfa – þetta er einhver atburður í hans huga,“ sagði Kristinn.

Getur gert plön og fylgt þeim

Spurður út í það hvort fræðilegur möguleiki sé að Alfreð hafi haft einhvern ásetning um að myrða Björgvin og Rósu sagði Kristinn að ljóst sé að Alfreð geti gert plön. Ferðin frá Neskaupstað til Reykjavíkur sýni að ekki sé hægt að útiloka að Alfreð hafi haft ásetning um að myrða hjónin.

Hann treysti sér þó ekki til þess að meta hvort skýr ásetningur hafi verið hjá honum að myrða hjónin, enda hafi Alfreð ekki kannast við það í samtali við hann að hafa orðið þeim að aldurtila.

Hann sagði það athyglisvert að í ranghugmyndaheimi Alfreðs, þar sem Alfreð upplifir að Guð og djöfullinn stýri honum, virðist ekki vera neitt „masterplan“ eins og oft er hjá sjúklingum með miklar ranghugmyndir.

Kristinn sagði Alfreð vita að það sé rangt að deyða og meiða. Hins vegar telji Alfreð sig vera verkfæri annarra afla.

Örlar ekki á sakhæfi

Kristinn telur það alveg skýrt að Alfreð sé ósakhæfur. Hann hafi séð það strax.

„Það örlaði ekki á því að hann væri sakhæfur,“ sagði Kristinn. Þá lýsti hann því hvernig aldrei hafi bráð að Alfreð, hann hafi aldrei dottið út úr ranghugmyndaheimi sínum. Hann trúi sínum ranghugmyndum algjörlega og að Guð og djöfullinn stýri hans gjörðum.

Tómas Zoëga, sem situr í fjölskipuðum dómnum ásamt Hákoni Þorsteinssyni dómsformanni og Barböru Björnsdóttur dómara, spurði Kristin betur út í veikindi Alfreðs.

Kristinn útskýrði að hann telji líklegt af sjúkraskrám og gögnum Alfreðs að hann hafi veikst alvarlega um fertugt. Það sé frekar seint á ævinni miðað við geðrofssjúkdóma.

Það sé oft einkenni hjá þeim sem veikjast andlega þegar þeir eru eldri að þeir haldi sínum persónueinkennum betur heldur en þeir sem veikjast fyrr á ævinni.

Þannig geti Alfreð komið vel fyrir í fyrstu og geti falið veikindi sín betur fyrir fólki.

Þá sagði Kristinn að fram kæmi í sjúkrasögu Alfreðs að hann hafi aldrei fengið langtíma lyfjameðferð við sínum geðræna vanda. Þá hafi hann aldrei fengið nægilega góða eftirfylgd þegar hann útskrifaðist af geðdeild.

Var hægt að koma í veg fyrir þetta?

Undir lok skýrslutökunnar var Kristinn spurður að því hvort það hefði verið hægt að sjá fyrir að Alfreð myndi fremja þetta voðaverk.

Kristinn sagði þetta vera vonda spurningu og óþægilegt að svara.

Hann sagði að þau sem vinni við geðlækningar vildu auðvitað að þau hefðu getað meðhöndlað hann áður en þetta gerðist. „En nákvæmlega svona óhæfuverk – það hefði enginn getað séð fyrir,“ sagði Kristinn.

En miðað við önnur gögn, aðra alvarlega atburði í sögu Alfreðs, séu vísbendingar um að voveiflegir atburðir gætu gerst í náinni framtíð. „Maður hefði viljað getað komið í veg fyrir það með meðferð,“ sagði Kristinn.

Þá spurði verjandi Alfreðs hvort eðlilegt hefði verið, í byrjun ágúst á síðasta ári, að útskrifa Alfreð af geðdeild. Í gögnum málsins komi fram að hann hafi verið uppfullur af ranghugmyndum og neitað lyfjagjöf.

Kristinn sagðist hvorki vilja svara þessari spurningu játandi né neitandi. Það væri auðvelt að svara spurningunni með sleggjudómi, að auðvitað hefði ekki átt að sleppa honum lausum þarna, en það væri eftiráskýring. Mögulega hefði verið hægt að skoða gögnin ítarlega og komast að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að svara spurningunni með einföldum hætti.

Spurður að því hvernig meðferð hann teldi að Alfreð þyrfti sagði Kristinn brýnt að Alfreð fengi langtímameðferð á réttargeðdeild. Miðað við hversu lengi Alfreð hafi verið veikur yrði meðferðartíminn mældur í árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert