Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segist ekki hafa velt sérstaklega fyrir sér orðum Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, þegar hún vísaði til umfjöllunar um styrkjamál til flokksins og sagði að „óvandaðir falsfréttamiðlar í eigu auðmanna og ákveðinna stjórnmálaafla“ kæmu fram við fólk eins og fífl.
Segir hún að almennt ættu kjörnir fulltrúar ekki að tjá sig með þessum hætti eins og Inga gerði.
Eftir að Inga lét umrædd ummæli falla mætti hún í viðtal á Útvarpi Sögu og í hlaðvarpi Eyjunnar og tengdi þar ummæli sín við Morgunblaðið. Hefur formaður Blaðamannafélags Íslands meðal annars gagnrýnt þessi ummæli Ingu harðlega.
Samflokksmaður hennar, Sigurjón Þórðarson, sem jafnframt er formaður atvinnuveganefndar, sagði á Útvarpi sögu í byrjun mánaðarins að endurskoða ætti ríkisstyrki til Morgunblaðsins í ljósi umfjöllunar miðilsins um Flokk fólksins og formann hans.
Kristrún hefur þá boðað að lækka eigi hámark styrkja til einkarekinna fjölmiðla, en það mun koma harðast niður á stærstu einkareknu fjölmiðlunum.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Kristrúnu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi hvort hún teldi ummæli Ingu til eftirbreytni og hvort hún tæki undir þau eins og aðrir ráðherrar og þingmenn í meirihlutanum hefðu gert.
Vísar hún þar meðal annars til þess að bæði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefðu verið meðal þeirra sem settu læk við færslu Ingu, en það gerði jafnframt Ingileif Friðriksdóttir, aðstoðarkona Þorgerðar og fyrrverandi blaðamaður.
Kristrún svaraði spurningu Hildar ekki beint, en sagði að sér þætti umræðan um þetta góð.
„Ég hef ekki velt neitt sérstaklega fyrir mér þessum sérstöku ummælum í þessu samhengi. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að við eigum auðvitað að gæta orða okkar. Það á við um í báðar áttir, það getur auðvitað komið hiti upp í erfiðum, í flóknum, í persónulegum málum og fólk er auðvitað oft í þeirri stöðu að þurfa að taka á sig gagnrýni sem getur stundum verið hörð,“ sagði Kristrún.
„En það breytir því ekki að við erum í lýðræðislegu samfélagi. Við eigum að virða sjálfstæði fjölmiðla. Við eigum að fagna krítískri umræðu. En ég hef ekki sérstaklega velt fyrir mér ummælum þessum í samhengi við siðareglur.“
Hildur spurði þá Kristrúnu hvort hún teldi orð Ingu samrýmast siðareglum ráðherra og vísaði til handbókar um siðareglur ráðherra.
„Ég vil að fjölmiðlar séu gagnrýnir. Fjölmiðlar eiga að spyrja óþægilegra spurninga og þeir eiga að vera beittir og ég tel að almennt eigi kjörnir fulltrúar ekki að tjá sig á þessum nótum. Það er mín skoðun. Það er í rauninni ekkert mikið meira um það að segja. Staðreyndin er auðvitað sú að við þurfum að lifa og þrífast í þessu fjölmiðlaumhverfi,“ sagði Kristrún.
„Það er jákvætt. Þetta er fjórða valdið. Við viljum fá aðhald frá fólki í kringum okkur. Við viljum að þau séu spurð krítískra spurninga. Auðvitað koma þá upp stundum athugasemdir sem eru óþægilegar. Ég er almennt á þeirri skoðun að fjölmiðlar eigi að vera beittir þeirra, eigi að vera gagnrýnir. Þetta er eitthvað sem við öll hérna inni þurfum að þola. Það er síðan annarra að ákveða nákvæmlega hvernig þeir velja orð sín.“
Tók Kristrún fram að það gætu komið upp aðstæður þar sem fólk vilji verja sig fyrir ákveðnum málflutningi, en að lykilatriði í lýðræðissamfélagi væri að vera með beitta, sanngjarna og málefnalega fjölmiðla.