„Ég tek það hins vegar líka til mín“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra svaraði fyrirspurn Ingibjargar Isaksen fyrr í dag.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra svaraði fyrirspurn Ingibjargar Isaksen fyrr í dag. mbl.is/Eyþór

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir ríkisstjórnina hafa gefið kennaraforystunni vilyrði fyrir því að flýta ætti vinnu við virðismat á störfum kennara og að hugsanlega væri hægt að ljúka því fyrir lok næsta árs.

Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Ingibjargar Isaksen, þingmanns Framsóknarflokksins, um hvernig koma ætti á ásættanlegum kjarasamningum við kennara, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Ingibjörg sagði traustið hafa verið rofið milli kennara og stjórnvalda.

Hægt verði að meta andlegt álag í starfi

Benti Kristrún á að deilt væri um jöfnun kjara sem fyrst hafi komið inn í umræðuna árið 2016, en núverandi ríkisstjórn hefði aðeins setið í tæpa tvo mánuði. Fyrri ríkisstjórn hefði hins vegar haft sjö ár til að vinna í ferlinu. Þess vegna væri traustið laskað.

„Ég tek það hins vegar líka til mín sem forsætisráðherra, vegna þess að þegar traust er orðið laskað gagnvart stjórnvöldum þá endurnýjast það ekki af sjálfu sér þó að breytt sé um fólk í brúnni, og það hefur tekið langan tíma og mörg samtöl með almennum hætti við kennaraforystuna, óháð þessari kjaradeilu,“ sagði Kristrún.

„Óháð þessari kjaradeilu vil ég segja að fullvissa þau um til að mynda að ríkisstjórnin standi með virðismatinu, standi með virðismati starfa og hafi trú á því ferli sem felst í því að setja af stað ákveðna vegferð sem gerir það þá að verkum að hægt sé að meta ákveðið andlegt álag, ákveðið álag sem birtist í störfum, til að mynda hjá stéttum þar sem er einkeypi,“ sagði Kristrún meðal annars.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins.
Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins.

Starf kennara breyst mikið

Ingibjörg sagði að Framsókn hefði sýnt að pólitísk inngrip í kjaraviðræður gætu verið farsæl, en slíkt þyrfti að gerast með gegnsæjum hætti og í samvinnu allra aðila við borðið.

Spurði hún hvaða afskipti aðilar ríkisstjórnarinnar hefðu haft af kjaraviðræðum kennara sem urðu til þess að þær fóru í uppnám fyrir rúmri viku síðan. En í síðustu viku kröfðust þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar Kristrúnar svara vegna fregna af því að barna- og menntamálaráðherra hefði boðið kennurum frekari launahækkanir en lágu á borðinu. Var Ingibjörg í þeim hópi.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, barna- og menntamálaráðherra, hefur tekið fyrir að hafa haft nokkur afskipti af deilunni, nema í gegnum ríkisstjórnina sem hafi boðið kennurum almennan aðgerðarpakka.

Ingibjörg sagði í fyrirspurn sinni undarlegt að kennarar hefðu talið samninga í höfn en svo hefði slitnað upp úr viðræðunum á síðustu stundu.

„Við getum nefnilega ekki litið fram hjá því hvaða áhrif þessi verkföll hafa mest bitnaði á börnunum okkar. Starf kennara hefur breyst mikið á undanförnum árum. Verkefnin eru orðin fjölbreyttari og krefjandi og ekki aðeins vegna breytinga á námsefni og kennsluháttum og fjölbreyttara samfélagi heldur einnig vegna síaukinnar ábyrgðar í velferðarmálum nemenda. Það er mikilvægt að við stöndum með kennurum og styðjum þá í starfi og bætum starfsaðstæður þeirra. Að öðrum kosti heldur fagmenntuðum kennurum áfram að fækka í stéttinni og það er þróun sem við höfum ekki efni á,“ sagði Ingibjörg.

Ríkisstjórnin geti liðkað fyrir

Kristrún svaraði ekki beint spurningu Ingibjargar um hvaða afskipti aðilar ríkisstjórnarinnar hefðu haft, öðruvísi en að vísa til þeirra almennu aðgerða sem ríkisstjórnin hefði boðið kennurum.

„Það er hins vegar þannig í lok dags að það eru sveitarfélögin sem eru að semja um prósentur, um almenn kaup og kjör við leik- og grunnskólakennara en ríkisstjórnin. Hún er þarna til að liðka fyrir og getur liðkað fyrir með því að flýta virðismati og með því að flýta almennum aðgerðum í menntamálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert