Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og ók á ljósastaur í miðborginni í gærkvöld. Engin meiðsli urðu á fólki en við skoðun kom í ljós að ökumaður var undir áhrifum áfengis og var hann vistaður í fangageymslu.
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun eru 45 mál bókuð í kerfum lögreglu og átta gista í fangaklefa.
Lögreglan fékk tilkynningu um mann í annarlegu ástandi í hverfi 105. Hann var handtekinn fyrir hótanir og var vistaður í fangaklefa.
Lögreglan stöðvaði nokkra ökumenn grunaða um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og þá reyndust tveir ökumenn sem voru stöðvaðir í akstri réttindalausir.
Tilkynnt var um mann sem var óvelkominn í annarlegu ástandi í húsi í hverfi 103 og var honum vístað úr úr húsinu.
Lögreglan á lögreglustöð 4, sem sinnir Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ, fékk tilkynningu um líkamsárás í hverfi 112. Um minniháttar meiðsli var að ræða en ekki er vitað hver gerandinn er.